Stjarnan varð VÍS bikarmeistari 9. flokks stúlkna í kvöld eftir sigur í úrslitaleik gegn Keflavík í Smáranum.
Á leið sinni í úrslitaleikinn hafði Keflavík lagt KR með 11 stigum og Stjarnan vann Val með 23 stigum.
Liðin þau tvö efstu það sem af er deildarkeppni 9. flokks stúlkna. Keflavík í efsta sætinu með 11 sigra og 1 tap, en Stjarnan sæti neðar í 2. sætinu með 8 sigra og 2 töp. Innbyrðis höfðu liðin mæst tvisvar á tímabilinu, þar sem Keflavík van stóran sigur gegn þeim síðast í upphafi árs í Blue höllinni, en leikinn fyrir áramót hafði Stjarnan unnið, líka stórt, en í Umhyggjuhöllinni.
Stjarnan var skrefinu á undan á upphafsmínútunum og ná snemma að skapa sér ágætis forystu. Keflavík er þó ekki langt undan, en þegar fyrsti er á enda er munurinn 5 stig, 22-17. Keflavík nær að vinna forskotið niður í fyrri hluta annars leikhluta og jafna leikinn loks með laglegum þrist þegar 5 mínútur eru til hálfleiks, 27-27. Leikurinn helst svo nokkuð jafn fram að hálfleik, en þegar liðin halda til búningsherbergja er Keflavík 2 stigum yfir, 35-37.
Stigahæst fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik var Berglind Katla Hlynsdóttir með 15 stig á meðan Oddný Hulda Einarsdóttir var komin með 8 stig fyrir Keflavík.
Leikurinn er svo í járnum í upphafi seinni hálfleiksins þar sem liðin skiptast á áhlaupum. Fyrst Keflavík, en svo Stjarnan og er jafnt á öllum tölum fyrir lokaleikhlutann, 50-50. Í upphafi þess fjórða nær Stjörnuliðið að læsa varnarlega og fá stórar körfur hinumegin á vellinum og er munurinn 9 stig þegar um 4 mínútur eru eftir, 62-53. Áhlaup Keflavíkur undir lokin er svo ágætt. Ná að minnka muninn niður í 6 stig, en að lokum var þetta upphaf á fjórða leikhluta þar sem þær skora aðeins 3 stig á 7 mínútum þeirra banabiti. Niðurstaðan að lokum virkilega sterkur sigur Stjörnunnar, 71-63
Þegar þær þurftu, náði Stjarnan að stöðva annars sterka sóknarmenn Keflavíkur í leik kvöldsins og er það líklega það sem vinnur leikinn að lokum fyrir þær. Að leyfa aðeins 3 stig í upphafi þess fjórða gjörsamlega drap vonir Keflavíkur um að vinna leikinn. Þá var Stjarnan einnig að gera flotta hluti sóknarlega, að sjálfsögðu þeirra lykilleikmaður Berglind Katla, en einnig sáust frábærir taktar frá Evu Ingibjörgu, Emblu Hrönn og fleiri leikmönnum þeirra.
Atkvæðamestar fyrir Keflavík í kvöld voru Elva Björg Ragnarsdóttir með 14 stig, 4 fráköst og Kamilla Nótt Bergsveinsdóttir með 11 stig og 4 fráköst.
Best í liði Stjörnunnar í kvöld var Berglind Katla Hlynsdóttir með 27 stig, 9 fráköst, 7 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Henni næst var Eva Ingibjörg Óladóttir með 19 stig og 9 fráköst.
Myndasafn/væntanlegt (Bára Dröfn)