Stjarnan urðu VÍS bikarmeistarar í 9. flokki drengja í dag eftir sigur gegn Keflavík í úrslitaleik í Smáranum.
Á leið sinni í úrslitaleikinn hafði Stjarnan lagt Breiðablik með 3 stigum og Keflavík vann Val með 28 stigum.
Liðin tvö þau tvö efstu í deildarkeppni 9. flokks drengja það sem af er tímabili. Stjarnan í efsta sæti með 13 sigra og ekkert tap á meðan Keflavík er í 2. sætinu með 12 sigra og 3 töp. Innbyrðis hafa liðin mæst í tvígang í vetur og Stjarnan haft sigur í bæði skipti. Fyrst með 13 stigum í Umhyggjuhöllinni um miðjan september, en með 3 stigum í Blue höllinni í janúar.
Úrslitaleikurinn fór mjög fjörlega af stað og lengst af var það Keflavík sem leiddi á upphafsmínútunum, en að loknum fyrsta fjórðung var forysta þeirra þó aðeins 2 stig, 18-20. Keflavík hafði verið að skjóta boltanum vel í þessum fyrsta leikhluta, en í öðrum fjórðungnum var eins og Stjarnan næði að koma í veg fyrir það. Nær Stjarnan svo góðum tökum á leiknum undir lok fyrri hálfleiksins og eru þeir 8 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 37-29.
Stigahæstur fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik var Jón Breki Sigurðarson með 14 stig, en fyrir Keflavík var Davíð Breki Antonsson kominn með 10 stig.
Stjarnan nær að hefja seinni hálfleikinn á sömu nótum og þeir enduðu þann fyrri. Gera Keflvíkingum gífurlega erfitt fyrir sóknarlega og ná sjálfir í að er virtist einfaldar körfur á hinum endanum. Byggja enn frekar á forskot sitt sem er orðið 17 stig fyrir lokaleikhlutann, 52-35. Nokkur kraftur er í Keflavík inn í fjórða leikhlutann, en í hvert skipti sem þeir virðast vera komast inn í leikinn nær Stjarnan að kveða þá í kút með góðum stoppum og auðveldum stigum. Á bramínútunum er Keflavík svo skrefi frá því að gera þetta að leik, en Stjarnan nær að lokum að sigla í höfn nokkuð sterkum sigri, 66-61.
Fyrir utan fyrsta leikhluta leiks dagsins spilaði Stjarnan frábæra vörn í leik dagsins og var það ástæðan fyrir þeir unnu. Sem lið fráköstuðu þeir líka vel, gjörsamlega áttu teiginn. Sóknarlega voru þeir einnig þolinmóðir og viljugir að deila boltanum, sem oftar en ekki hjálpaði þeim að setja stig á töfluna. Keflvíkingar voru einnig flottir í þessum leik, gáfust aldrei upp og voru nálægt því að vinna sig inní hann undir lokin.
Atkvæðamestur fyrir Keflavík í leiknum var Davíð Breki Antonsson með 26 stig, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þá bætti Sigurður Karl Guðnason við 16 stigum og 2 stoðsendingum.
Fyrir Stjörnuna var Jón Breki Sigurðarson atkvæðamestur með 22 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Kormákur Nói Jack með 17 stig og 10 fráköst.
Myndasafn (Bára Dröfn)