spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan VÍS bikarmeistarar í 10. flokki stúlkna

Stjarnan VÍS bikarmeistarar í 10. flokki stúlkna

Stjarnan lagði Njarðvík í kvöld í úrslitaleik VÍS bikars 10. flokks stúlkna, 86-57.

Fyrir leik

Það sem af er keppni í 10. flokkinum er Keflavík í efsta sætinu með 18 stig, Stjarnan í öðru með 14 stig og Njarðvík og KR jöfn í 3.-4. sætinu með 10 stig.

Samkvæmt heimildum Körfunnar mun Stjarnan þó hafa leikið eitthvað af leikjum vetrarins án Ísoldar Sævarsdóttur, Kolbrúnar Maríu Ármannsdóttur og Heiðrúnar Hlynsdóttur, sem umdeilanlega eru þrír af betri leikmönnum flokksins. Í leikinn í kvöld var Ísold hionsvegar mætt, en bæði Heiðrún og Kolbrún voru frá vegna meiðsla.

Gangur leiks

Stjarnan er sterkari aðilinn í upphafi leiks. Ná snemma ágætis forystu, sem Njarðvík tekst ágætlega að vinna niður, en Stjarnan setur fótinn aftur á bensíngjöfina undir lok fyrsta fjórðungs og er 7 stigum yfir eftir fyrstu tíu mínúturnar, 25-18. Njarðvík nær aftur að vinna niður forskot Stjörnunar í byrjun annars leikhlutans með sterku 7-0 áhlaupi, 25-25. Leikurinn er svo nokkuð jafn fram á lokamínútu hálfleiksins, en þá nær Stjarnan góðum sprett og er 8 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja, 42-34.

Stigahæstar fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleiknum voru Ísold Sævarsdóttir og Bo Guttormsdóttir-Frost með 12 stig á meðan að Sara Björk Logadóttir var komin með 10 stig fyrir Njarðvík.

Stjarnan rígheldur í forystu sína í upphafi seinni hálfleiksins. Gera vel að bæta lítillega við hana í þriðja leikhlutanum og eru 12 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 59-47. Í byrjun fjórða leikhlutans keyrir Stjarnan yfir Njaðvík. Ná hægt, en mjög örugglega að auka forskot og eru komnar 26 stigum yfir þegar 3 mínútur eru eftir, 79-53. Eftirleikurinn að er virtist nokkuð auðveldur fyrir Stjörnuna, sem vinna leikinn að lokum nokkuð örugglega 86-57.

Atkvæðamestar

Fyrir Stjörnuna var Bo Guttormsdóttir-Frost atkvæðamest í leiknum með 20 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Þá bætti Elísabet Ólafsdóttir við 18 stigum og 17 fráköstum.

Atkvæðamestar í liði Njarðvíkur voru Sara Björk Logadóttir með 20 stig, 14 fráköst og Hulda María Agnarsdóttir með 10 stig og 9 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hafsteinn Snær)

Fréttir
- Auglýsing -