spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan VÍS bikarmeistarar í 10. flokki drengja

Stjarnan VÍS bikarmeistarar í 10. flokki drengja

Stjarnan urðu í kvöld VÍS bikarmeistarar í 10. flokki drengja eftir úrslitaleik gegn KR í Smáranum.

Á leið sinni í úrslitin hafði KR lagt Val nokkuð örugglega og Stjarnan hafði betur gegn Aftureldingu.

Það sem af er tímabili eru liðin í tveimur efstu sætum deildarinnar, bæði með 11 sigra, en Stjarnan með aðeins 1 tap á meðan KR hefur tapað 4 leikjum á tímabilinu. Á tímabilinu hafa liðin mæst tvisvar og hefur Stjarnan haft sigur í bæði skiptin. Með 10 stigum í janúar og 14 stigum fyrir áramótin í byrjun október.

Stjarnan er með góð tök á leiknum í upphafi. Ná snemma smá forskoti, mest 8 stigum í fyrsta fjórðungnum, en KR nær að klóra sig til baka og er munurinn aðeins 2 stig þegar fyrsti er á enda, 18-20. Undir lok fyrri hálfleiksins er komið að KR að setjast í bílstjórasætið og ná þeir mest 7 stiga forskoti í öðrum fjórðungnum, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik hefur Stjarnan náð að koma til baka og er staðan jöfn, 38-38.

Stigahæstur fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Benóní Stefán Andrason með 20 stig á meðan Steinar Rafn Rafnarsson var kominn með 17 stig fyrir Stjörnuna.

Stjarnan opnar seinni hálfleikinn á 9-2 áhlaupi og nær því aftur í smá forystu á fyrstu mínútum þriðja leikhlutans, 40-47. Stjarnan lét svo kné fylgja kviði. Loka á nánast allt sem KR reynir að gera, fá skotin til að detta á sóknarhelmingi vallarins og ná mest 14 stiga forystu. KR nær þó aðeins að laga stöðuna fyrir lok fjórðungsins og er munurinn 7 stig fyrir þann fjórða, 50-57.

Stjarnan fór svo langleiðina með að klára leikinn í upphafi þess fjórða. Setja nokkra þrista og eru komnir með 19 stiga forystu þegar um 5 mínútur eru til leiksloka. Eru svo nokkuð agaðir fram á lokamínúturnar og ná að halda fengnum hlut. Niðurstaðan að lokum sigur Stjörnunnar, 60-81.

Stjarnan náði í nokkur áhlaup í nokkuð kaflaskiptum leik kvöldsins. Flest þeirra komu vegna þess þeir hreyfðu boltann og skutu vel. Náðu þá að setja stig í bunkum og KR tókst alls ekki að svara þessum áhlaupum nægilega vel. Stjörnuliðið var einnig flott varnarlega, náðu að verja hringinn vel með stórum leikmönnum sínum og þá settu bakverðir þeirra mikla pressu á boltann nánast allan leikinn.

Atkvæðamestir fyrir KR í leiknum voru Benóní Stefán Andrason með 28 stig, 10 fráköst og Jóhannes Ragnar Hallgrímsson með 8 stig, 7 fráköst og 3 stolna bolta.

Fyrir Stjörnuna voru atkvæðamestir Steinar Rafn Rafnarsson með 23 stig, 7 fráköst og Daníel Geir Snorrason með 19 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -