Stjörnukonur tóku á móti Skallagrími í Domino’s deild kvenna í Mathús Garðabæjar höllinni í gær, miðvikudag. Fyrir leik voru Stjörnukonur í þriðja sæti deildarinnar en Skallagrímur í því sjöunda, en Stjarnan hefur undanfarið háð hörkubaráttu við KR og Snæfell um sæti í úrslitakeppni deildarinnar.
Stjörnukonur tóku fljótt frumkvæðið í leiknum og höfðu náð 14 stiga forskoti snemma í öðrum leikhluta, 28-14. Gestirnir úr Borgarnesi bitu hins vegar heldur betur í skjaldarrendur og náðu að minnka muninn niður í þrjú stig áður en fyrri hálfleik lauk, en staðan í hálfleik var 40-37, heimakonum í vil.
Skallagrímur byrjaði seinni hálfleik talsvert betur og skoruðu átta fyrstu stigin í þriðja leikhluta, áður en Stjörnukonur rönkuðu við sér með 7-0 áhlaupi. Eftir það áhlaup var Stjarnan alltaf skrefi á undan og unnu þær að lokum fimm stiga sigur, 72-67.
Lykillinn
Skallagrímur á mikið hrós skilið fyrir sinn leik í gær, en liðið mætti einungis með átta leikmenn á skýrslu og spilaðu fimm leikmenn yfir 38 mínútur hjá Borgnesingum. Þessir fimm leikmenn áttu í fullu tré við Garðbæinga, en gott áhlaup heimakvenna í þriðja leikhluta virtist gera útslagið, og reyndist gestunum erfitt að elta eftir það.
Hetjan
Aldrei þessu vant var Danielle Rodriguez ekki best í liði Stjörnunnar, en Danielle skoraði einungis 7 stig, sem er fjarri meðalstigaskori hennar. Veronika Dzhikova steig hins vegar heldur betur upp og skoraði 19 stig, þar af fimm þrista.
Framhaldið
Stjarnan situr eftir sigurinn sem fastast í þriðja sæti deildarinnar þegar þrír leikir eru eftir, og virðast vera að tryggja sér farseðilinn í úrslitakeppnina. Næst eiga þær útileik gegn Haukum þriðjudaginn 19. mars. Skallagrímur situr hins vegar í 7. sæti og gætu enn fallið í 1. deild. Næsti leikur þeirra er á heimavelli gegn Snæfelli í Vesturlandsslag, miðvikudaginn 20. mars.