Í gærkvöld fór fram stórleikur Stjörnunnar og KR í DHL-höllinni vestur í bæ. Voru þar á ferð liðin í 3. og 4. sæti og var því ljóst að um mikilvægan leik var að ræða. Fyrir leikinn höfðu heimamenn í KR aðeins tapað einum leik, gegn Njarðvík, en Stjörnumenn höfðu tapað tveimur, gegn Tindastól og Grindavík.
Fyrsti leikhluti var alveg ótrúlega jafn. Hvorugt liðið náði nokkru frumkvæði í leiknum og tilþrif voru af skornum skammti. Þó virtust bæði liðin staðráðin í að sækja 2 stig úr leiknum og var ágætis barátta í mönnum. Eftir tíðindalítinn fyrsta leikhluta gerðist það svo í blálokin að Justin Shouse sólaði alla 5 leikmenn KR áður en hann kláraði með fallegu sniðskoti og jafnaði þar með leikinn í 25-25 en sú var staðan að loknum fyrsta leikhluta og þessum skemmtilegu tilþrifum.
Annar leikhluti var sem spegilmynd af þeim fyrsta. Hvorugt liðið tók nokkuð frumkvæði í leiknum og um leið og annað liðið virtist ætla að sigla fram úr svaraði hitt liðið alltaf jafnharðan. Hjá Stjörnunni voru það þeir Justin og Jovan sem leiddu veginn eins og svo oft áður en Brynjar Þór Björnsson var beittastur í liði KR-inga, að öðrum ólöstuðum. Eftir annan leikhluta höfðu KR-ingar eins stigs forskot, 42-41 og ljóst að leikurinn hafði alla burði til að verða spennandi.
Í 3.leikhluta gerðist það loksins að annað liðið sigldi örlítið fram úr en KR-ingar náðu sér í nokkurra stiga forskot. Fátt gekk upp hjá Stjörnumönnum á örskömmum kafla og það nýttu Vesturbæingarnir sér ágætlega. Í lok leikhlutans höfðu KR-ingar 7 stiga forystu, 67-60 og flestir hefðu líklega veðjað á að Íslandsmeistararnir sigldu skútunni heilu og höldu í höfn.
Garðbæingar voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp. Þrátt fyrir að hafa lent mest 9 stigum undir í lokaleikhlutanum tókst þeim með ótrúlegri vörn og baráttu að vinna mun KR-inga upp og vinna að lokum góðan og jafnframt mikilvægan 5 stiga útisigur 78-73. Glöggir geta séð að Stjörnumenn héldu Íslandsmeisturunum í aðeins 6 stigum í 4.leikhluta en það er annar leikurinn í röð þar sem Stjarnan heldur afar sterkum andstæðingi undir 10 stigum í lokaleikhlutanum.
Leikurinn í Frostaskjóli var ágæt skemmtun. Sigurinn hefði í raun getað lent hvorum megin sem var og KR-ingar hefðu vel getað haldið fengnum hlut en vítahittnin brást þeim í þetta skiptið. Það er þó ljóst að bæði Stjarnan og KR gætu verið í baráttunni um þann stóra í vor. Stigahæstur Stjörnumanna var eins og svo oft áður Justin Shouse með 29 stig. Stigahæstir KR-inga voru þeir Brynjar Þór Björnsson og Tommy Johnson með 15 stig hvor.
Texti: Elías Karl Guðmundsson