Stjörnumenn tóku á móti Grindavík í Subway deild karla í gærkvöldi. Fyrir leik fögnuðu Stjörnumenn nýju nafni á heimavelli félagsins, en Ásgarður mun í vetur heita Umhyggjuhöllin. Samningur þess efnis var undirritaður fyrir leik, en það er byggingafélagið E. Sigurðsson ehf. sem keypti nafnaréttinn að höllinni. Í stað þess að setja eigið nafn á höllina, ákvað E. Sigurðsson hins vegar að nefna hana eftir Umhyggju, félagi langveikra barna, til að vekja athygli á starfsemi félagsins.
Leikurinn sjálfur var hins vegar aldrei spennandi, og virtust heimamenn vera staðráðnir í að fagna nýja nafni heimavallarins með eins stórum sigri og mögulegt var. Stjörnumenn höfðu mikla yfirburði frá fyrstu til síðustu sekúndu, og unnu að lokum 29 stiga sigur, 94-65.
Robert Turner var stigahæstur Stjörnumanna með 35 stig, en hjá gestunum var Damier Pitts stigahæstur með 18.
Næsti leikur Stjörnunnar er 2. desember næstkomandi þegar Garðbæingar mæta Blikum í Smáranum, í baráttunni um Arnarneshæðina. Degi fyrr fara Grindvíkingar til Egilsstaða þar sem þeir mæta Hetti.