spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStjarnan sterkari í brakinu gegn Val

Stjarnan sterkari í brakinu gegn Val

Stjarnan lagði heimamenn í Val í kvöld í Subway deild karla, 74-78. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 4.-5. sæti deildarinnar, en Valur á innbyrðis viðureignina og eru því í efra sætinu.

Fyrir leik

Valur vann fyrri leik liðanna í deildinni með 12 stigum í MGH þann 4. nóvember, 79-91. Bæði lið verið nokkuð góð, ekki frábær, fyrir leik kvöldsins. Valur unnið 3 af síðustu 5 og 7 af síðustu 10. Stjarnan hinsvegar með sigur í 3 af síðustu 5 og 6 af síðustu 10.

Gangur leiks

Stjarnan náði að vera skrefinu á undan í upphafi leiks. Setja niður 5 af 9 fyrir utan þriggja stiga línuna og eru 5 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 17-22. Heimamenn í Val ná svo að einhverju leyti að snúa taflinu sér í vil í öðrum leikhlutanum. Leikurinn þó í járnum þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-41.

Stigahæstur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Kári Jónsson með 16 stig á meðan að fyrir Stjörnuna var Hilmar Smári Henningsson með 11 stig.

Segja má að Kári Jónsson hafi verið á eldi í upphafi seinni hálfleiksins. Setur 4 af 4 þristum niður, eitt sniðskot og er í heild með 14 stig og 100% nýtingu í þriðja leikhlutanum. Stjarnan á einhver svör við þessu, en eru samt 9 stigum undir þegar að fjórðungurinn er á enda, 67-58. Varnarleikur Stjörnunnar var til fyrirmyndar í upphafi fjórða leikhlutans og ná þeir mjög hægt, en örugglega að vinna aðeins á forskoti heimamanna og eru aðeins 3 stigum undir þegar fjórar mínútur eru eftir, 71-68. Á lokamínútunum er leikurinn svo í járnum, en Stjarnan náði að vera skrefinu á undan alveg í blálokin og sigla heim virkilega sterkum 4 stiga sigri, 74-78.

Tölfræðin lýgur ekki

Stjarnan passaði boltann mun betur í leiknum, tapa aðeins 9 boltum á móti 19 töpuðum boltum Vals.

Atkvæðamestir

Hilmar Smári Henningsson og Robert Turner voru atkvæðamestir í liði Stjörnunnar í kvöld. Hilmar með 19 stig, 3 fráköst og Robert með 18 stig og 5 stoðsendingar.

Fyrir heimamenn í Val var það Kári Jónsson sem dró vagninn með 29 stigum og þá bætti Kristófer Acox við 12 stigum og 10 fráköstum.

Hvað svo?

Næsti leikur Vals er samkvæmt skipulagi þann 14. febrúar gegn Grindavík í HS Orku Höllinni. Stjarnan á hinsvegar ekki leik fyrr en þremur dögum seinna gegn KR í MGH.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Fréttir
- Auglýsing -