Þórsarar í Þorlákshöfn halda mót í samstarfi við Ícelandic Glacial fjórða árið í röð í september. Mótið fer fram þessa dagana en ein umferð fer fram í dag. Að þessu sinni eru það Grindavík, Njarðvík og Stjarnan sem taka þátt í mótinu ásamt heimamönnum.
Í dag fóru fram tveir leikir á mótinu þar sem Stjarnan vann öruggan sigur á Njarðvík og Grindavík vann ótrúlegan sigur á Þór Þ.
Fyrri leikur dagsins var viðureign Stjörnunnar og Njarðvíkur. Stjarnan hefur ekki tekist að ná öllum hópnum saman síðustu vikur vegna landsliðsverkefna en var fullmönnuð í dag en Njarðvík lék án Jeb Ivey.
Stjarnan náði góðri forystu strax í fyrri hálfleik og gáfu hana aldrei af hendi. Bæði lið rúlluðu á öllum leikmönnum sínum en Njarðvíkingar áttu ekki roð í Garðbæinga í dag. Lokastaðan var 97-69 fyrir Stjörnunni.
Fimm leikmenn Stjörnunnar voru með fleiri en tíu stig en Paul Anthony Jones var stigahæstur með 19 stig. Ægir Þór Steinarsson var einnig sterkur með 17 stig, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Colin Pryor var með 17 stig og þá var Dúi Þór Jónsson virkilega öflugur með 15 stig.
Mario Matasovic var atkvæðamestur hjá Njarðvík með 22 stig og sjö fráköst, ljóst er að þar er gríðarlega öflugur leikmaður á ferðinni. Snjólfur Marel var með 10 stig og Kristinn Pálsson með 13 stig.
Það var mun meiri spenna í seinni leik dagsins þegar heimamenn í Þór tóku á móti Grindavík. Þórsarar voru með undirtökin megnið af leiknum en Grindavík neitaði að leggjast í jörðina og gefast upp.
Leikurinn virtist vera algjörlega í höndum Þórsara þegar fjórði leikhluti var hálfnaður en Grindvíkingar með Sigtrygg Arnar í broddi fylkingar komu til baka á lokasekúndunum. Lokasekúndurnar voru æsispennandi en Grindavík fékk boltann með 2,7 sekúndur eftir af leiknum og staðan 74-74. Boltinn rataði til Hlyns Hreinssonar sem var opinn í horninu, hann setti þriggja stiga körfu rétt áður en leikklukkan rann út og Grindavík stal þar með sigrinum.
Hægt er að sjá myndband af sigurkörfu Hlyns hér.
Sigtryggur Arnar Björnsson var að frábær í liði Grindavíkur í dag. Hann endaði með 26 stig og þar af sex þriggja stiga körfur í átta tilraunum. Terrell Vinson var með góða tvennu í leiknum eða 21 stig og 13 fráköst.
Hjá Þórsurum var Ginatautas Matulis öflugur með 18 stig og 8 fráköst. Nick Tomsick var einnig sterkur með 16 stig og 10 stoðsendingar auk þess sem Ragnar Örn Bragason var með 9 stig og Halldór Garðar var með 10 stig.