spot_img
HomeFréttirStjarnan mikið bjartari en vonarneisti

Stjarnan mikið bjartari en vonarneisti

Hattarmenn eygja enn von um að halda sæti sínu í deildinni eftir stóran og góðan sigur á ÍR-ingum í síðustu umferð. Stig eru hins vegar ekkert á útsölu í Ásgarði í Garðabæ og andstæðingar kvöldsins, Stjörnumenn, þurfa ekki síður á þeim að halda í baráttunni ofar í töflunni. Stjarnan hefur augastað á öðru sæti deildarinnar og Haukamenn fylgja fast á hæla þeirra. Það mátti því búast við mikilli baráttu um stigin tvö sem í boði voru í kvöld.

Mirko setti fyrstu stig leiksins fyrir gestina en heimamenn sýndu strax að þeir ætluðu ekki að hleypa Hattarmönnum á neitt flug. Stjarnan skoraði næstu 10 stig og varnarleikur austan-manna vægast sagt ósannfærandi. Heimamenn fengu margar ódýrar körfur sem komu úr öllum áttum. Benda má á að Hattarmenn fengu sína fyrstu villu þegar 3 mínútur lifðu af fyrsta leikhluta – þeir voru hreinlega ekki nógu nálægt boltanum til að brjóta og vörnin algert gatasigti. Sóknarleikur gestanna var aftur á móti mikið til einleikur hjá Tobin og gegn fimm einbeittum Stjörnumönnum var uppskeran fremur rýr. Staðan var 26-14 eftir leikhlutann og Stjarnan með alla stjórn á leiknum.

Arnþór hefur kannski ekki alveg náð að sýna sitt besta í vetur en var vel stemmdur í kvöld. Hann snögghitnaði í öðrum leikhluta og raðaði þristum eins og hann er þekktur fyrir. Í stöðunni 39-22 virtist fátt geta bjargað gestunum, varnarleikurinn ekkert skárri og Tobin enn að mestu einn í sóknarleiknum. Þetta kristallaðist í því að þegar brotið var á Hreini í bónus kom Tobin sér fyrir á vítalínunni. Hattarmönnum til happs var það leiðrétt og Hreinn gerði sig meira gildandi í kjölfarið. Hans framlag lagaði aðeins stöðuna fyrir gestina, staðan 48-36 í hálfleik.

 

Tobin fékk eilítið meiri stuðning sóknarlega frá sínum liðsfélögum sóknarlega í seinni hálfleik. Varnarleikurinn var hins vegar átakanlegur sem fyrr og munurinn hélst í kringum 15 stigin. Stjörnumenn nýttu sér það ágætlega og stigaskorið dreifðist bróðurlega á milli manna. Þegar 3 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta gripu gestirnir til svæðisvarnar – þó fyrr hefði verið. Það gat ekki versnað og gerði það ekki – nokkrir stolnir boltar komu út úr því og smá líf færðist í Hattarmenn. Lítið saxaðist þó á forskotið og 16 stiga munur á liðunum fyrir lokaleikhlutann, 71-55.

Gestirnir héldu áfram í svæðinu og þó svo það hafi gefið ágæta raun dugði það skammt. Um miðjan leikhlutann, í stöðunni 83-63, voru úrslitin endanlega ráðin og austan-menn búnir að fá nóg af úrvalsdeildinni í bili. Eftir nokkuð frjálslega leiknar lokamínútur lauk leik með mjög öruggum 90-72 sigri Stjörnumanna.

Stjörnumenn eiga hrós skilið fyrir þennan leik því þó svo að botnliðið hafi verið í heimsókn er aldrei nóg að klæða sig í búninginn. Þeir byrjuðu grimmir, spiluðu góða vörn og tættu varnarleik gestanna ítrekað í sig. Það var engin lykt af vanmati og þeir gáfu andstæðingum sínum í raun aldrei neina von. Fimm leikmenn skiluðu 10+ stigum, Tommi Tomm flestum eða 18 stigum og gaf þar að auki 5 stoðsendingar og hirti 7 fráköst. Frábær leikur hjá honum sem og liðinu í heild.

Sennilega verður að segjast alveg eins og er að Hattarmenn eru ekki á botninum af ástæðulausu. Tobin var langatkvæðamestur þeirra að vanda með 27 stig og allnokkur fráköst og stoðsendingar að auki. Vonandi sjáum við austan-menn aftur í úrvalsdeild áður en langt um líður – sterkari og betur í stakk búnir til að takast á við þá bestu.
 

Stjarnan 90 – 72 Höttur (26-14, 22-22, 23-19, 19-17)

Stjarnan: Tómas Heiðar Tómasson 18 stig/7 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 17 stig/6 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 15 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 11 stig, Al‘lonzo Coleman 10 stig/12 fráköst/ 8 stoðsendingar, Ágúst Angantýsson 9 stig/7 fráköst, Sæmundur Valdimarsson 6 stig/5 fráköst, Óskar Þór Þorsteinsson 2 stig, Magnús Bjarki Guðmundsson 2 stig, Grímkell Orri Sigurþórsson 0 stig, Marvin Valdimarsson 0 stig, Muggur Ólafsson 0 stig.

Höttur: Tobin Carberry 27 stig, Hreinn Gunnar Birgisson 12 stig/7 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 12 stig, Eysteinn Bjarni Ævarsson 10 stig/5 fráköst, Sigmar Hákonarson 4 stig/5 fráköst, Ásmundur Hrafn Magnússon 3 stig, Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 2 stig, Gísli Þórarinn Hallsson 2 stig, Brynjar Snær Grétarsson 0 stig, Hallmar Hallsson 0 stig.

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Myndir (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -