Nýliðar Stjörnunnar tóku á móti Breiðabliki í Subway deild kvenna í gærkvöldi í Umhyggjuhöllinni. Stjörnukonur höfðu unnið þrjá af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni fyrir leik gærkvöldsins, en Blikar voru stigalausar.
Stjarnan hafði tögl og hagldir frá fyrstu mínútu gærkvöldsins. Garðbæingar voru komnar með tveggja stafa forystu strax í fyrsta leikhluta, og héldu henni út leikinn. Að lokum vann Stjarnan 29 stiga sigur, 85-56, í leik þar sem Blikar náðu aldrei að ógna að neinu ráði.
Katarzyna Trzeciak var stigahæst í liði Stjörnunnar með 24 stig, en Kolbrún María Ármannsdóttir skoraði 20. Í liði Blika var Brooklyn Pannell stigahæst með 16 stig.