spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan/KFG VÍS bikarmeistarar í 11. flokki drengja

Stjarnan/KFG VÍS bikarmeistarar í 11. flokki drengja

Stjarnan/KFG urðu VÍS bikarmeistarar í 11. flokki drengja í dag eftir sigur í úrslitaleik gegn Breiðablik í Smáranum.

Á leið sinni í úrslitaleikinn hafði Stjarnan/KFG lagt Sindra með 26 stigum og Breiðablik vann Aftureldingu með 16 stigum.

Það sem af er deildarkeppni er Stjarnan/KFG í efsta sætinu með 16 sigra og aðeins 1 tapaðan leik. Breiðablik er öllu neðar í töflunni, í 6. sætinu með 7 sigra og 9 töp. Innbyrðis hafa liðin mæst í tvígang og hefur Stjarnan/KFG haft sigur í bæði skiptin. Með 65 stigum í september í upphafi tímabils í Umhyggjuhöllinni, en 53 stigum í Fagralundi þann 4. nóvember.

Stjarnan/KFG var betri aðilinn í upphafi leiks. Síga framúr á upphafsmínútunum og eru þægilegum 9 stigum yfir að fyrsta fjórðung loknum, 27-18. Stjarnan/KFG bætir svo í í öðrum fjórðungnum og þegar enn eru 8 mínútur til hálfleiks eru þeir 16 stigum yfir, 37-21. Stjarnan/KFG er mikið til að skapa sér þetta með áræðinni pressuvörn, þar sem þeir tvöfalda oft á leikmenn á þeirra vallarhelming og skapa þannig tapaða bolta sem þeir ná auðveldlega að breyta í tvö stig. Munurinn 27 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 65-38.

Stigahæstur fyrir Stjörnuna/KFG í fyrri hálfleiknum var Jakob Kári Leifsson með 17 stig á meðan Rökkvi Svan Ásgeirsson var kominn með 11 stig fyrir Breiðablik.

Engin bönd héldu Stjörnunni/KFG í upphafi seinni hálfleiksins. Gera útum leikinn í þriðja leikhlutanum og leiða með 42 stigum fyrir lokaleikhlutann, 97-55. Það er óhætt að segja að það hafi slaknað aðeins á leiknum í fjórða leikhlutanum. Ekki það að bæði voru leikmenn Stjörnunnar/KFG og Breiðabliks að leggja sig fram, en úrslitin voru meira og minna ráðin, hvorugt liðið pressaði jafn stíft og þá leyfðu bæði lið sér að hvíla sína lykilleikmenn. Að lokum vann Stjarnan/KFG gríðarlega verðskuldað, 119-76.

Vörnin sem Stjarnan/KFG spilaði þessum leik var ástæðan fyrir sigri þeirra. Náðu oftar en ekki að láta Breiðablik líða alveg agalega með boltann í höndunum. Virkilega lunknir að pressa, ná boltanum á sínum eigin vallarhelming og skapa sér auðveldar körfur. Reyndar bara almennt góðir að sækja hratt og setja stig á töfluna. Vel að titlinum komnir eftir þennan leik.

Atkvæðamestir í liði Breiðabliks í kvöld voru Rökkvi Svan Ásgeirsson með 15 stig, 4 fráköst, Sigurþór Hjörleifsson með 12 stig, 11 fráköst, 3 stoðsendingar og Matthías Ingvi Róbertsson með 17 stig.

Fyrir Stjörnuna/KFG var atkvæðamestur Jakob Kári Leifsson með 25 stig, 13 fráköst, 20 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Þá bætti Pétur Harðarson við 23 stigum, 3 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatans)

Fréttir
- Auglýsing -