spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaStjarnan í undanúrslit eftir sterkan sigur í Ólafssal

Stjarnan í undanúrslit eftir sterkan sigur í Ólafssal

Haukar tóku á móti Stjörnunni í Ólafssal í oddaleik um sæti í undanúrslitum úrslitakeppni kvenna í körfubolta í kvöld. Stjarnan hafði betur eftir æsilegan leik og fer áfram í undanúrslitin; mætir bikar- og deildarmeisturum Keflavíkur í undanúrslitum. Lokatölur urðu 73-76. 

Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur eins og títt er um úrslitaleiki; kaflaskiptur leikur í heildina kryddaður með mikilli baráttu og vilja. 

Það var mun betri ára yfir Stjörnunni en Haukunum í byrjun leiks og hélst það út fyrsta leikhluta. Áfram hélt taugaspennan í öðrum leikhluta; Haukastelpur gáfu í og misstu aldrei Stjörnustelpur of langt frá sér í fyrri hálfleik; gestirnir voru klaufar að vera ekki með meira forskot í leikhléi og Haukarstelpur vissu vel af því – en þá var staðan 32-39.

Stjarnan var vel á undan í þriðja leikhluta og var með 13 stiga forskot fyrir fjórða leikhlutann. Haukastelpur neituðu að láta undan og spyrntu hressilega við fótum og lokakaflinn var æsispennandi. 

Haukar komust einu stigi yfir er lítið lifði leiks en Stjörnunni tókst að ná forskotinu á nýjan leik og lét það ekki af hendi þrátt fyrir mikla baráttu Haukastelpna. 

Frábær sigur Stjörnunnar því staðreynd og framtíðin er þeirra. Kat­arzyna Trzeciak setti 19 stig niður fyr­ir Stjörn­una, og þá var Denia Dav­is-Stew­art frábær; skoraði 18 stig og reif niður 18 frá­köst – átti teiginn. Hins vegar var það Ísold Sævarsdóttir sem átti senuna og gerði nánast allt; stoðsendingar, stig, frábær vörn, biluð barátta krydduð með rosalegum hæfileikum og óbilandi trú; svona eiga íþróttamenn að vera. Ein sú allra efnilegasta sem undirritaður hefur séð spila þennan leik. Og það verður bara að segjast eins og er: Undirritaður skrifaði í fyrsta sinn um körfubolta í DV keppnistímabilið 1989-90, og þetta Stjörnulið er einfaldlega eitt það allra áhugaverðasta, skemmtilegasta og aggressívasta lið sem ég hef séð á löngum ferli. 

Haukaliðið átti möguleika á sigri í lokin en Stjarnan  slökkti þann vonarneista. Liðið var misjafnt í þessum leik, en sýndi það til dæmis í lokin hversu megnugt það er, þótt það dygði ekki til að þessu sinni. Keira Robin­son setti niður 21 stig, tók átta frá­köst – gaf einnig níu stoðsend­ing­ar; var besti leikmaður Hauka. Gaf allt í þetta. Þá skoraði Tinna Guðrún Al­ex­and­ers­dótt­ir 15 stig. 

Tölfræði leiks

Myndasöfn (væntanleg)

Fréttir
- Auglýsing -