Undanúrslitin í Bónus-deildinni hófust nú á öðrum degi páska með tveimur leikjum. Katalóníu-hluti Garðabæjar lagði land undir fót og heimsótti deildarmeistara Tindastóls en undirritaður var í Ásgarði þar sem Stjarnan fékk gula og glaða Grindvíkinga til sín í Garðabæinn fagra.
Það liggur í hlutarins eðli að bæði lið mæta með kassann úti eftir góðar seríur í 8-liða úrslitunum. Stjörnumenn lögðu ÍR-inga að velli 3-1 og komu í veg fyrir nýtt ævintýri í Breiðholtinu. Stjarnan var með ágæta stjórn á seríunni en ÍR-ingar gerðu frábærlega á seinni hluta tímabilsins með meistara Borche við stjórnvölinn.
Grindvíkingar höfðu sömuleiðis 3-1 betur gegn Íslands- og bikarmeisturum Vals. Það kom mörgum á óvart en þeir gulu hafa verið ansi mikið upp og niður í vetur. Valsarar komu hins vegar á svakalegum spretti inn í úrslitakeppnina en meiðsli nafna hægðu verulega á þeim rauðu. Tekst Grindvíkingum mögulega að spyrna sér á sprett af Valsmönnum og toppa á réttum tíma?
Kúlan: ,,Neinei…þú veist ekki neitt! Stjörnumenn verða með gestina meira og minna í einhverju krónísku drippli við miðlínu og ekkert að gerast. Heimamenn útfrákasta Gula, Orri Gunn mun raða þristum og vinstrihandartroða yfir Grindvíkinga í það minnsta einu sinni. Lokatölur 95-83“.
Byrjunarlið
Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley
Grindavík: Pargo, Kristófer Breki, Kane, Óli, Mortensen
Gangur leiksins
Mortensen ákvað að bjóða upp á þristasýningu í byrjun leiks og Baldur sá ekki vit í öðru en að taka leikhlé eftir þrjár mínútur í stöðunni 2-11. Sóknarleikur gestanna var alger hörmung næstu mínúturnar og Orri Gunn jafnaði leika í 13-13 með þristi um miðjan leikhlutann. Leikurinn var í miklu jafnvægi eftir þetta en heimamenn komust ekki yfir fyrr en í lok fjórðungsins í stöðunni 26-24 og Stjarnan leiddi 26-25 eftir einn.
Annar leikhlutinn var frábær skemmtun! Liðin skiptust á forystunni ítrekað og bæði sóknar- og varnartilþrif í boði fyrir áhorfendur. Rombley varði skot eins og brjálæðingur, alley-oop troðslur beggja megin frá Arnóri og Rombley, þristaregn héðan og þaðan en aðallega frá Orra Gunn! Stjörnumenn enduðu fyrri hálfleikinn aðeins betur, Orri með einn af sínum þristum og Ægir átti lokaskotið sem var hyldjúpur tvistur. Staðan 47-44 í hléi. Ægir var í rallý-gírnum og var með 12 stig líkt og Orri fyrir heimamenn í hálfleik. Hinum megin var Mortensen kominn með 13 stig, Kane næstur með 10 í reyndar fullmörgum skotum.
Mortensen setti fyrstu 5 stigin í seinni hálfleik og útlit fyrir háspennu lífshættu í Ásgarði. Um miðjan leikhlutann leiddi Hilmar Smári hins vegar smá sprett heimamanna, hann byrjaði á því að troða kvikindinu ofan í körfuna, bætti þristi við í næstu sókn og heimamenn komnir 7 yfir, 60-53. Pargo setti ekki stig í fyrri hálfleik en náði að svara fyrir gestina með 5 stigum í röð. Stjörnumenn létu það ekkert á sig fá og Júlíus Orri setti síðasta steininn í múrinn fræga í stöðunni 74-64. Fyrir lokaleikhlutann stóðu leikar 75-67 og Stjarnan með smá tök á leiknum.
Ólafur Ólafsson fyrirliði gestanna gerði sér lítið fyrir og raðaði niður 4 þristum fyrir sína menn snemma í lokaleikhlutanum, minnkaði muninn í 85-83 og enn nóg eftir eða 7 mínútur. Aftur létu heimamenn engan bilbug á sér finna og fremstur í flokki fór Ægir Þór ásamt Hilmari Smára. Stjarnan byggði bara aftur upp um 10 stiga forystu og gestirnir urðu óþreyjufullari eftir því sem mínútunum fækkaði. Gestirnir þurftu nauðsynlega á nokkrum góðum stoppum að halda sem komu ekki. Hilmar setti tvo risaþrista síðustu mínúturnar og segja má að Ægir hafi endanlega gengið frá leiknum með stórkostlegum hreyfingum í teignum sem endaði með flotskoti. Hann setti þá stöðuna í 106-95 og aðeins 1 og hálf til leiksloka. Niðurstaðan varð 108-100 Stjörnusigur í frábærum körfuboltaleik!
Menn leiksins
Ægir Þór var án nokkurs vafa maður leiksins, setti 29 stig, tók 4 fráköst og gaf 13 stoðsendingar. Svakalegur! Hilmar setti 27 stig, skaut gríðarlega vel í kvöld og tók 4 fráköst.
Ólafur Ólafsson skoraði 26 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar fyrir gestina. Mortensen skoraði í kippum, endaði með 27 stig og tók 5 fráköst.
Kjarninn
Stjörnumenn sýndu vissulega góðan leik í kvöld en ekki síst sýndu þeir andlegan styrk. Áhlaup gestanna virtust ekki hreyfa nokkurn skapaðan hlut við þeim og fókusinn allur á að byggja bara strax aftur upp smá púða. Undirritaður og Ægir urðu í það minnsta sammála um þá greiningu í stuttu spjalli eftir leik. Að lokum má benda á að allt byrjunarliðið setti 12+ stig í kvöld sem veit á gott.
NBA-Pargo og Kane hafa átt betri leiki. Pargo setti t.d. ekki stig í fyrri hálfleik og báðir skutu þeir óvenju illa í kvöld. Kallað hefur verið eftir Óla og Mortensen að undanförnu – þeir mættu í kvöld heldur betur og Grindvíkingar þurfa að mæta allir í næsta leik ef vel á að fara. Óli Óla var persónulega staddur á þeim stað að fara ekki of langt niður þrátt fyrir tap í fyrsta leik í kvöld samkvæmt sálgreiningu undirritaðs í spjalli við Óla eftir leik. Bara næsti leikur, áfram gakk og þeir halda til hafs á ný.
Myndasafn (væntanlegt)