Stjarnan hefur samið við Florenciu Palacios um að leika með liðinu á komandi leiktíð í Dominos deild kvenna. Palacious er alin upp í Argentínu en er einnig með ítalskt vegabréf.
Florencia er 31. árs reynslumikill framherji sem leikið hefur víða um Evrópu. Þar á meðal á Ítalíu, Spáni, Danmörku, Þýskalandi og nú síðast í Svíþjóð. Hún var með 8,9 stig og 3,2 fráköst að meðaltali í leik í sænsku úrvalsdeildinni á nýliðinni leiktíð. Hún á að baki nokkra landsleiki fyrir Argentínu á sínum ferli.
Leikmaðurinn er fjölhæfur og getur leikið bæði sem hávaxinn bakvörður eða kraftframherji. Florencia er góður skotmaður auk þess að vera sterk á boltanum og er hreyfanleg undir körfunni.
Stjarnan ætlar sér stóra hluti á komandi leiktíð en liðið bætti við sig þremur leikmönnum fyrir stuttu í þeim Jóhönnu Björk Sveinsdóttur, Auði Írisi Ólafsdóttur og Sólrúnu Sæmundsdóttur. Liðið hefur hinsvegar misst Bryndísi Hönnu til Blika.