spot_img
HomeFréttirStjarnan ekki í erfiðleikum með Grindavík b

Stjarnan ekki í erfiðleikum með Grindavík b

Stjarnan er enn efst og ósigruð í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik eftir sex leiki. Liðið átti ekki í teljandi erfiðleikum með B lið Grindavíkur á laugardag.

 
Stjarnan stakk af strax í byrjun þar sem hinum gulklæddu gestum gekk brösuglega að koma boltanum ofan í körfuna. Eftir fyrsta leikhluta höfðu þær aðeins skorað þrjú stig á móti sextán sigum Graðbæinga og virtust fastar í sömu álögum og gegn Haukum B fyrr í vikunni þar sem þær skoruðu aðeins fimm stig í fyrri hálfleik.

 
 
Svo fór ekki að þessu sinni en þær bláklæddu juku forskot sitt í 38-18 fyrir leikhlé. Amanda Andres og Heiðrún Ösp Hauksdóttir fóru mikinn í liði Stjörnunnar og skoruðu yfir tíu stig hvor í hálfleiknum, fyrir utan að búa til færi fyrir samherja sína.
 
Amanda snéri sig að vísu í byrjun seinni hálfleiks og var út af um stund auk þess sem fleiri leikmenn Stjörnunnar heltust úr lestinni. Á sama tíma fór Grindavíkurliðið, sem Guðmundur Bragason stýrði í leiknum, að spila ákveðnari vörn. Þeim gekk samt illa að skora nema rétt í lokin en staðan eftir þriðja leikhluta var 55-33. Stjarnan náði mest 30 stiga forskoti, 51-21.
 
Uppsveifla Grindavíkurliðsins hélt áfram og þær unnu seinasta leikhluta. Það ergði Stjörnuþjálfarann Berry Timmermann þótt lið hans héldi þægilegu, um það bil 20 stiga, forskoti og ynni að lokum, 64-45.
 
Heiðrún Ösp Hauksdóttir skoraði 18 stig fyrir Stjörnuna og Amanda Andrews 16 auk þess sem hún sendi 9 stoðsendingar. Guðrún Ósk Guðmundsdóttir skoraði níu stig fyrir Grindavík.
 
Texti og myndir: Gunnar Gunnarsson – fleiri myndir hér
 
Fréttir
- Auglýsing -