spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStjarnan aftur á sigurbraut

Stjarnan aftur á sigurbraut

Stórleikur 9. umferðar Domino’s deildar karla fór fram í Mathús Garðabæjar höllinni í gær, sunnudag, þegar Stjörnumenn tóku á móti fimmföldum Íslandsmeisturum KR. Fyrir leik höfðu KR-ingar unnið 5 leiki og tapað 3, á meðan Garðbæingar höfðu unnið fjóra og tapað jafnmörgum, en þar af voru þrír tapleikir í röð.

KR-ingar byrjuðu leikinn betur og virtust hafa gott tak á heimamönnum á fyrstu mínútum leiksins. Staðan að loknum fyrsta fjórðungi var 24-30, gestunum í vil. Annar leikhluti varð hins vegar vendipunktur leiksins, en Stjörnumenn tóku einfaldlega öll völd á vellinum, skoruðu að vild og settu algerlega í lás í vörninni. Svo fór að Stjarnan vann annan fjórðung 31-10, og leiddu Garðbæingar því með 15 stigum í hálfleik. Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda og að lokum hafði Stjarnan 11 stiga sigur, 95-84.

Hvað skóp sigurinn?

Stjörnumenn hafa þótt spila yfir pari það sem af er vetri en sýndu heldur betur mátt sinn og megin í gær gegn fimmföldum Íslandsmeisturum. Eftir brösuga byrjun á leiknum tóku þeir öll völd og var sigurinn frekar öruggur þegar uppi var staðið. Segja má að vendipunktur leiksins hafi komið á sjöundu mínútu í fyrsta fjórðungi, þegar Jón Arnór Stefánsson varði sniðskot Ægis Þórs Steinarssonar. Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, taldi hins vegar að Jón hefði brotið á Ægi í skotinu, og lét óánægju sína í ljós með því að vaða inn á völlinn. Að sjálfsögðu uppskar Arnar tæknivillu fyrir vikið, en svo virðist vera sem að atvik þetta hafi kveikt verulega í heimamönnum og að sama skapi slökkt allan neista hjá Vesturbæingum, en KR-ingar fundu aldrei fjölina sína eftir þetta.

Bestur

Eftir erfiða byrjun á tímabilinu hefur hinn finnski Antti Kanervo heldur betur sprungið út í síðustu tveimur leikjum Stjörnunnar. Antti lauk leik með 21 stig í gærkvöldi, þar af sex þriggja stiga körfur. Þá voru Paul Anthony Jones og Hlynur Bæringsson einnig sterkir, en Jones skoraði 21 stig á meðan Hlynur var með 20 stig og 14 fráköst.

Framhaldið

Eftir sigurinn sitja Stjörnumenn í fjórða sæti með 5 sigra og fjögur töp, og hafa sætaskipti við Vesturbæinga sem sitja nú í fimmta sæti. Næsti leikur KR-inga er gegn ÍR í DHL-höllinni fimmtudaginn 13. desember, en á sama tíma fara Stjörnumenn til Grindavíkur.

 

Fréttir
- Auglýsing -