spot_img
HomeFréttirStirt samband á köflum

Stirt samband á köflum

Það var heilmikið undir í leik FSu og ÍA í 1. deild karla, sem leikinn var í Iðu í gærkvöldi. Bæði lið höfðu tapað fyrstu tveimur leikjunum og vildu bæta úr því. En eftir erfiðar upphafsmínútur tók FSu-liðið völdin á vellinum og vann öruggan sigur, 82-69.
 
Það má segja að allar tengingar heimamanna hafi verið í ólagi fyrir og í upphafi leiks. Til stóð að sýna beint frá leiknum á Netinu og búið að auglýsa það víða um heim, svo áhorfendur biðu við skjái sína í hundraðatali. Ekki tókst að koma á sambandi í þetta skipti en ábyrgðarmenn félagsins trúa hinu fornkveðna, að fall sé fararheill, og stefna ótrauðir að því að hafa þetta í lagi á næsta heimaleik. Leikmennirnir virtust vera full meðvitaðir um mikilvægi leiksins og voru „utan þjónustusvæðis“ mestallan fyrsta leikhlutann. Akurnesingar gengu hinsvegar á öllum, eins og tólf gata alvöru tryllitæki, og með 10-0 spretti náðu þeir 15 stiga forystu undir lok fyrsta fjórðungs. FSu átti þó lokaorðið og staðan eftir 10 mínútur var 14-26.
 
Fyrir annan fjórðung náði Erik Olson, þjálfari FSu, að stinga flestum leikmönnum sínum í samband og þá var ekki að sökum að spyrja, heimamenn unnu fyrri 5 mínútur fjórðungsins 14-5 og þær seinni 11-8 og staðan í hálfleik því orðin jöfn, 39-39. Þegar best lætur spilar FSu-liðið fantaskemmtilegan sóknarleik.
 
ÍA skoraði fyrstu tvö stigin í seinni hálfleik, 39-41, en þá datt sendirinn á Akrafjalli út og FSu skoraði 21 stig gegn engu. Staðan orðin 60-41 og Akurnesingar komnir í alldjúpa holu. Sigurður Elvar og tæknimenn hans komu þó aftur á lágmarkssambandi og liðið bætti við 5 stigum fyrir lok þriðja hluta, en þá var staðan 63-46. Í síðasta leikhluta sýndu ÍA-strákarnir góða baráttu, minnkuðu muninn smám saman niður í 11 stig, en nær komust þeir ekki. Þeir unnu fjórðunginn 19-23 en FSu leikinn með 13 stiga mun, eins og áður kom fram.
 
Það var gaman að fá ÍA-liðið í heimsókn. Þar eru innanborðs ekki færri en 5 leikmenn sem hafa verið í körfuboltaakademíunni og spilað fyrir FSu. Einn þeirra, Birkir Guðjónsson, byrjaði leikinn með látum og sallaði niður fyrstu stigunum. Nokkuð dró þó af honum, eins og flestum félögum hans, eftir fyrsta leikhluta og endaði Birkir með 9 stig. Sigurður Rúnar var öflugur í endurkomu liðsins í lokafjórðungnum, setti 12 stig alls og tók 5 fráköst. Áskell Jónsson skoraði 9 stig og gaf 4 stoðsendingar en Lorenzo McClelland var þeirra stigahæstur með 24 stig, auk 6 frákasta og 6 stolinna bolta. Þá skoraði Trausti Freyr Jónsson 5 stig, Böðvar Sigurvin og Ómar Örn Helgason 4 og Hörður Nikk. 2 stig. Það er tilfinning tíðindamanns að flestir þessir strákar hafi áður verið í betra formi og með úrbótum þar á muni liðið reynast skeinuhætt í deildinni.
 
Hjá FSu fór Ari Gylfason fremstur í flokki. Þó hann væri nokkrar mínútur að ná beintengingu við netið var hann lykilmaður í öllu flæði sóknarlega, t.d. með nokkrum stoðsendingum af dýrari gerðinni, og að auki settur í vörninni til höfuðs besta sóknarmanni ÍA. Ari skoraði 25 stig, úr 5 þristum (50%) og 10 vítum (100%). Þá var barátta hans til fyrirmyndar, eins og 10 fráköst bera glöggt vitni. Daði Berg byrjaði varfærnislega en óx jafnt og þétt og í síðari hálfleik stjórnaði hann allri umferð. Skotnýting Daða var óvenju slök en hann bætti það vel upp með 9 fráköstum og 7 stoðsendingum. Daði setti 7 stig, og ekkert ógnarlangt í þrefalda tvennu hjá honum. Nýi maðurinn, Matt Brunell, er öflug viðbót við leikmannahópinn, sterkur og duglegur strákur sem verður enn meiri ógn þegar hann kemst í betri leikæfingu eftir ársfjarveru. Matt var með 16 stig og 6 fráköst (skráður sem Maciej Klimaszewski á tölfræðiskýrslu).
 
Hallmar Hallsson er bráðefnilegur strákur sem var í fyrsta skipti í byrjunarliði. Hann kveikir í netinu af löngu færi, skoraði 9 stig úr 5 tilraunum af þriggja stiga færi og tók að auki 9 fráköst. Svavar Ingi skoraði 13 stig og fer vaxandi með hverjum leik og Arnþór Tryggvason er eitilharður nagli, skoraði 8 stig og reif 6 fráköst á 14 mínútum. Hjálmur Hjálmsson (2 stig, 3 fráköst), Daníel Kolbeinsson og Gísli Gautason (2 stig) stóðu allir meira en vel fyrir sínu, þær mínútur sem þeir fengu.
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
Ljósmynd/ Hermann Snorri
Fréttir
- Auglýsing -