Njarðvík lagði heimakonur í Haukum í Ólafssal í kvöld í Subway deild kvenna, 70-78. Eftir leikinn er Njarðvík í efsta sæti deildarinnar með 24 stig á meðan að Haukar eru í 4. sætinu með 18 stig. Deildin heldur áfram að vera spennandi og jöfn en sigur Njarðvíkur í kvöld þýðir að þær halda í við Fjölni, sem einnig eru með 24 stig, en þær lögðu Keflavík í kvöld í Dalhúsum.
Njarðvík gaf ekkert ókeypis líkamlega alveg frá byrjun og þar í forystu var Vilborg fyrirliði Njarðvíkur sem dró vagninn fyrir gestina á báðum endum vallarins. Leikhlutinn var nánast jafn í stigum eftir fyrsta leikhluta eða 19-20 fyrir Njarðvík. Þrátt fyrir virka dómara þá hætti Njarðvík aldrei í sínu leikskipulagi og hélt áfram að sýna hraustleikamerki sem virtist slá Haukastelpurnar út af laginu. Staðan í hálfleik var 37-42 fyrir Njarðvík.
Í þriðja leikhluta virtust heimastúlkur hafa sætt sig við að leikurinn yrði spilaður á þessum líkamlegu forsendum og leikmenn Njarðvíkur væru ekkert að fara að slaka á og ákváðu að taka þátt sem gerði leikinn spennandi þó lítið væri skorað en Njarðvíkurstúlkum tókst þó að enda þriðja með því að setja nokkrar stemmningskörfur og staðan orðin 49-59 fyrir gestum.
Í kaflaskiptum lokaleikhluta náðu Haukastelpur að komast ansi nálægt því að gera þetta að spennandi leik en Njarðvík landaði verðskulduðum 70-78 sigri þar sem bestar voru Vilborg Jónsdóttir og Aliyah Collier þó að með sanni megi segja að liðsheild Njarðvíkur og leikgleði hafi verið lykilþáttur í sigrinum. Hjá Haukum var Keira Robinson best og Bríet átti flotta innkomu en Haukakonur virtust aldrei almennilega ná sér í gang sem ætti að gefa þeim byr undir báða vængi fyrir komandi átök.