U18 lið stúlkna átti síðasta leik dagsins gegn Eistlandi. Leikurinn var æsispennandi fram að síðustu sekúndu en þær töpuðu því miður 62-65. Á morgun mæta þær gríðarsterku liði Svíþjóðar og ætla þær sér að komast aftur á sigurveginn.
Jana Falsdóttir, sem spilaði ekki í gær gegn Danmörku vegna ökklameiðsla úr fyrsta leik, spilaði með liðinu í dag. Hekla Eik Nökkvadóttir meiddist snemma í leiknum gegn Danmörku en spilaði samt líka gegn Eistlandi í dag. Báðar áttu þær flottan leik og spiluðu 20+ mínútur.
Gangur leiks
Leikurinn byrjaði frekar rólega en þegar leikhlutinn var hálfnaður kviknaði all hressilega í Eistunum og skoruðu þær 16 stig í röð og staðan orðin 7-20 fyrir Eistlandi. Eitthvað virtist einbeitingin og samheldnin ekki vera til staðar hjá íslenska liðinu og fjölmargar slakar sendingar urðu til þess að Ísland var með 13 tapaða bolta í leikhlutanum. Eistland komst mest 14 stigum yfir en þá skoruðu Íslendingar nokkrar stórar körfur og staðan eftir fyrsta leikhluta 14-25.
Það var mikil barátta í báðum liðum í öðrum leikhluta og íslensku stelpurnar duglegar að koma sér inn í teig, en lítið var um skoraðar körfur. Í heildina hitti liðið aðeins úr 2 skotum af 22 í leikhlutanum. Þó nægði þessi slaka nýting til þess að halda leikhlutanum jöfnum, 11-11. Lokatölur í hálfleik 25-36.
Ísland byrjaði vel í þriðja leikhluta þar sem Emma Sóldís setti stóran þrist og Sara Líf brunaði með boltann í körfuna eftir að stela honum. Keyrsla Íslendinganna hélt áfram og tókst þeim að minnka muninn í 3 stig þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Stíf vörn, gott liðsspil og töluvert betri hittni (8/15 skotum) kom Íslandi yfir í fyrsta skipti síðan snemma í fyrsta leikhluta og lokatölur þriðja leikhlutans 48-47 fyrir Íslandi. (23-11 í leikhlutanum)
Eistarnir komust 6 stigum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir en stórar körfur frá Jönu og Heklu minnkuðu muninn aftur í 1 stig. Eistland setti eitt víti en Hekla jafnar með tveimur öruggum vítaskotum. Í næstu sókn klikka Eistar á þriggja stiga skoti en ná sóknarfrákastinu og komast yfir með tveimur. Tapaður bolti hjá Íslandi leiðir til vítaskota fyrir Eista og aðeins seinna fer ofaní. 10 sekúndur eftir og boltinn fer á Önnu Láru sem klikkar á þriggja stiga skoti. Ísland nær sóknarfrákastinu en kæfandi vörn verður til þess að Jana neyðist til þess að fleygja boltanum í átt að körfunni. Ísland tapar 62-65.
Atkvæðamestar
Jana Falsdóttir átti ágætis leik eftir að hún missti af þeim síðasta, en hún endaði leikinn með 11 stig og tvo stolna bolta. Sara Líf Boama spilaði líka vel þar sem hún reif niður 7 fráköst og stal tveimur mikilvægum boltum.
Áberandi tölfræði
Skotnýtingabæting Íslands kom á hárréttum tíma, þar sem þær skutu 2/22 í öðrum leikhluta en 8/15 í þriðja.
Hvað er næst?
Liðið á leik gegn Svíþjóð á morgun kl 13:00 að íslenskum tíma.