Þór-Aþena 82:68
Þór hafði betur gegn Aþenu í 7. Umferð Bónusdeild kvenna í körfubolta í leik sem fram fór í íþróttahöllinni á Akureyri fyrr í kvöld lokatölur 82:68. Þótt Þór hafi lengst af leitt leikinn þá voru það gestirnir sem byrjuðu betur og komust fljót í 10:0 en þá vöknuðu heimakonur. Þór náði góðum spretti tóku 12:2 kafla og staðan jöfn 12:12 þegar þrjár mínútur lifðu leikhlutans. Þegar leikhlutinn var allur leiddu gestirnir með einu stigi 16:17.
Heimakonur byrjuðu annan leikhlutann ágætlega og eftir rúma mínútu var Þór komin með þriggja stiga forskot 20:17 en gestirnir svöruðu með tveimur körfum og komust yfir 21:20. Þessu svaraði Þór með fjórum stigum og komust yfir 24:21. Eftir þetta hafði Þór undirtökin í leiknum og fram að hálfleik leiddi liðið með allt að 7 stigum. Aðeins fimm stig skildu liðin að í hálfleik 40:35.
Fyrri hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu beggja liða og ljóst að ef sama baráttugleðin yrði til staðar í síðari hálfleik gætu áhorfendur átt von á góðu. Hjá Þór í fyrri hálfleik var Maddie stigahæst með 12 stig og Eva Wium og Amandine með 8 stig hvor og Emma Karólína með 6 stig. Hjá gestunum voru þær Jada og Elektra með 6 stig hvor og þær Barbara og Lynn með 5 stig hvor.
Þriðji leikhlutinn einkenndist af mikilli baráttu þar sem Þór náði mest 14 stigum en rétt í þann mund sem þriðji leikhlutinn var að renna sitt skeið var munurinn 10 stig 60:50 þá setti Dzana Crnac niður flautuþrist og minnkaði muninn í sjö stig 60:53.
Þórsstúlkur höfðu sterkari taugar en gestirnir á lokakaflanum og náðu þær mest 15 stiga forskoti 78:63. Eins og áður segir þá höfðu heimakonur þótt fáliðaðar séu betur og unnu 14 stiga sigur 82:68 og var sannarlega verðskuldaður.
Framlag leikmanna Þórs Esther Fokke 22/10/4, Madison Sutton 18/17/5, Amandine Toi 15/3/2, Emma Karólína 12/5/1, Eva Wium 10/2/5 og Natalia Lalic 5/3/0.
Framlag leikmanna Aþenu: Elektra Mjöll 15/3/2, Ajulu Obur 11/4/0, Dzana Crnac 11/1/2, Barbara Ola 9/5/5, Lynn Aniquel 7/8/0, Jada Christine 6/1/0, Ása Lind 4/3/2, Gréta Björg 3/1/0 og Jade Edwards 2/2/0.
Gangur leiks eftir leikhlutum: 16:17 / 24:18 (40:35) 20:18 / 22:15 = 82:68
Leikur kvöldsins var hin ágætasta skemmtun tveggja góðra liða, sem lögðu allt í sölurnar og léku heilt yfir prúðmannlega. En því miður fór heldur lítið fyrir prúðmennsku og almennri virðingu þjálfara gestaliðsins við leikinn. Almennt látbragð og sora orðbragð dundi yfir leikmenn, dómara og gesti alla í húsinu með þvílíku offorsi að mann setur hljóðan. Maðurinn var ekki bara sjálfum sér, heldur liðinu sínu til háborinnar skammar með hegðun sinni, já í raun setur svona framkoma svartan blett á körfuboltahreyfinguna alla. Maður spyr sig eftir á hvernig á því gat staðið að dómarar og starfsmenn gátu látið þessa hegðun viðgangast. Svona framganga hefur ekkert með tilfinningar að gera og klárlega ekki gott fordæmi fyrir unga krakka, sem voru og eru oftast fjölmargir meðal áhorfenda. Við getum gert svo mikið betur. Áfram körfubolti.
Umfjöllun, myndir / Palli Jóh