spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSterkari á lokasprettinum

Sterkari á lokasprettinum

Haukar höfðu betur gegn Þór Akureyri í Ólafssal í kvöld í 6. umferð Bónus deildar kvenna.

Eftir leikinn hafa Haukar unnið fimm leiki og tapað einum á meðan Þór Akureyri hafa unnið tvo og tapað fjórum.

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur náðu gestirnir frá Akureyri ágætis tökum á leiknum í lok fyrsta fjórðungs, en að honum loknum leiddi Þór með 7 stigum, 16-23. Því forskoti ná þær svo að hanga á til loka fyrri hálfleiks, en þegar liðin halda til búningsherbergja eru þær 9 stigum yfir, 37-46.

Þrátt fyrir nokkuð gott áhlaup í upphafi seinni hálfleiksins lætur Þór forystuna ekki af hendi í þriðja leikhlutanum og leiða með 13 stigum fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða var svo komið að heimakonum, sem hægt og bítandi ná að vinna muninn niður og komast í forystu þegar tæpar fimm mínútur eru eftir af leiknum, 81-79. Leikurinn var svo í járnum fram á lokamínútunum, en þá taka Haukar öll völd á vellinum og klára leikinn með furðulega öruggum sigri, 94-85.

Atkvæðamest í liði Hauka í leiknum var Diamond Battles með 33 stig, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Henni næst var Lore Devos með 24 stig og 11 fráköst.

Fyrir Þór var það Madison Sutton sem dró vagninn með 14 stigum og 20 fráköstum. Þá skilaði Eva Wium Elíasdóttir 22 stigum, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Það er stutt á milli leikja í deildinni nú þegar landsleikjahléið er nýafstaðið, en næst eiga Haukar leik komandi þriðjudag 19. nóvember gegn Grindavík í Smáranum og Þór Akureyri fær nýliða Aþenu í heimsókn degi seinna miðvikudag 20. nóvember.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -