Fyrrum stjörnuleikmaður NBA deildarinnar Stephon Marbury vinnur þessa stundina í því að koma á samning milli heimaborgar sinnar New York og kínverskra framleiðenda um sölu á grímum.
Marbury, sem er fæddur og uppalinn í borginni New York, lék fyrir fimm lið á NBA feril sínum frá árinu 1996-2009. Frá 2009 til ársins 2017 lék hann í kínversku CBA deildinni og frá árinu 2019 hefur hann verið þjálfari þar hjá liði Beijing Royal Fighters.
Samningurinn er upp á 10 miljónir af grímum, sem hafa orðið bæði sjaldgæfar og rokið upp í verði vegna Covid-19 faraldursins sem ríður yfir heiminn og er einna verstur í New York. Samkvæmt ríkisstjóra New York fylkis, Andrew Cuomo, eru grímur sem áður voru seldar á 80 krónur, nú seldar á 1050 krónur. Við fréttirnar mun Marbury hafa sett sig í samband við borgarstjóra heimahverfis síns í Brooklyn, Eric Adams, og boðið fram aðstoð sína við að koma á samkomulagi. Mun verðið sem Marbury náði samkomulag um hljóða upp á 385 krónur stykkið.
Marbury sagði “Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er ég frá Brooklyn. Það er mér mjög kært að geta hjálpað New York. Stór hluti fjölskyldu minnar býr þarna, á Coney Island. Þetta hefur áhrif á þau og ég veit hversu mikilvægt það er fyrir fólk að geta verið með grímur þessa dagana”
Sem þjálfari í Kína upplifði Marbury það sjálfur þegar að Covid-19 faraldurinn fór upphaflega af stað í landinu. Þurfti hann bæði að vera í sóttkví í nokkrar vikur á meðan að faraldurinn gekk yfir, sem og þurfti hann að vera með grímu eftir að það varð aftur í lagi fyrir hann að fara út.