spot_img
HomeFréttirStephen Curry og þyngdarafl sólar

Stephen Curry og þyngdarafl sólar

Þetta er heimurinn hans Stephen Curry og við búum bara í honum. Maðurinn er einfaldlega óstöðvandi þessa dagana. Byrjar leiktíðina með svo miklum látum að annað eins hefur ekki sést síðan Michael Jordan var upp á sitt besta. 

 

Curry skorar ekki bara stig heldur gerir hann alla aðra góða í kringum sig. Hann er með 5,9 stoðsendingar í leik og það setur hann í topp 20 allra leikmanna í deildinni. Við höfum öll séð þetta.  Það sem fæstir gera sér samt grein fyrir er hversu mikil áhrif hann hefur á allan varnarleik andstæðingsins.

 

Þegar Curry fær boltann verður sjálfkrafa neyðarástand hjá andstæðingum Golden State Warriors. Hann er skilgreiningin á því sem þjálfarar kalla “triple threat”:  Hann getur skotið, keyrt á körfuna og gefið boltann… og er einn sá besti í deildinni í öllum þremur þáttum. 

 

Curry athafnar sig á hraða sem fæstir skilja. Hann rekur knöttinn hraðar en flestir í heiminum. Hann er sneggri að skjóta en flestir í heiminum. Þegar hann er kominn með boltann í hendurnar er ekki liðin heil sekúnda áður en skot er farið af stað í átt að körfunni eða hann er farinn framhjá varnarmanninum sem gerir tilraun til þess að hindra för hans. Þegar hann fær boltann í hendurnar verður oftast óðagot á varnarmönnum andstæðingsins og allt opnast fyrir hina fjóra sem eru með Curry í liði.

 

Þetta er kallað að hafa aðdráttarafl, nema hvað aðdráttarafl Stephen Curry jafnast á við það sem sólin býr yfir í samanburði við aðra – eða tæplega þrjátíufalt aðdráttarafl jarðar.

 

Við sáum þetta ítrekað í úrslitakeppninni í sumar og við erum að sjá þetta ítrekað á þessari leiktíð. Sjáið bara sjálf á GIF-myndunum hér að neðan.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -