spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaSteinar Kaldal tekur við Ármanni - Oddur og Óli aðstoðarþjálfarar

Steinar Kaldal tekur við Ármanni – Oddur og Óli aðstoðarþjálfarar

Ármenningar tilkynntu í morgun að nýr þjálfari liðsins yrði Steinar Kaldal sem þjálfað hefur yngri flokka þjálfara félagsins síðustu ár og er auðvitað auk þess reynslumikill leikmaður. Einnig var tilkynnt að honum til aðstoðar yrðu þeir Oddur Birnir og Ólafur Þór.

Tilkynningu Ármanns má finna hér að neðan:

Gengið hefur verið frá samningum þess efnis að Steinar Kaldal verði nýr þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu. 

Steinar þarf vart að kynna fyrir körfuboltaáhugamönnum. Hann lék í fjölmörg ár með liði KR í efstu deild þar sem hann varð m.a. íslandsmeistari með liðinu tvíveigis, 2000 og 2007.  Þá lék hann einnig með liði Ármanns í 1. deildinni 2008 og 2009. 

Síðustu ár hefur Steinar þjálfað yngri flokka Ármanns og nú síðast tíunda og ellefta flokk félagsins. Hann stýrði ellefta flokk til Íslandsmeistaratitils í 2. deild í vor. 

Steinar mun stýra liðinu í 1. deild karla á komandi leiktíð en honum til aðstoðar verða þeir Oddur Birnir Pétursson og Ólafur Þór Jónsson. 

Oddur hefur leikið með liðinu síðustu tvö ár en lagði skónna á hilluna í sumar. Hann hefur leikið með Njarðvík og Val í efstu deild og er því með mikla reynslu á bakinu. Oddur mun ásamt þjálfun meistaraflokks aðstoða við þjálfun 11. flokks. 

Ólafur stýrði meistaraflokknum síðustu tvö ár og kom m.a. liðinu upp í 1. deild. Eftir síðasta tímabil steig hann til hliðar og gegnir starfi aðstoðarþjálfara á komandi leiktíð. 

Nokkrar breytingar hafa orðið á meistaraflokk karla en þrátt fyrir að einhverjir leikmenn hafi leitað á önnur mið er engan bilbug að finna á nýju þjálfarateymi. Skýrt markmið er að koma ungum leikmönnum félagsins að í meistaraflokknum og að þeir verði í lykilhlutverki í félaginu á komandi árum. Auk þess verða ungir íslenskir leikmenn í aðalhlutverki og ætti Ármann að vera spennandi kostur fyrir unga leikmenn sem þurfa að fá tækifæri. 

Fréttir
- Auglýsing -