Stefán Karel Torfason hefur samið við kkd. ÍR um að spila með félaginu á komandi leiktíð. Þetta staðfesti Kristján Pétur Andrésson, formaður kkd. ÍR í samtali við Karfan.is. Stefán hyggst flytja til borgarinnar samkvæmt formanninum en hann er afar sáttur við að hafa náð að semja við miðherjann.
"Ég þekki Stefán og hef spilað með honum. Þetta er góður drengur og mikill liðsmaður. Skemmir heldur ekki að fá eitt svona kjötstykki í teigin hjá okkur," sagði Kristján fyrr í dag.
Stefán samdi við ÍR til tveggja ára en hingað til hefur hann leikið með Snæfelli. Hann skoraði 11,6 stig að meðaltali í leik og tók 10,4 fráköst. Stefán var í 10. sæti yfir leikmenn deildarinnar í fráköstum og 21. sæti í framlagi með 17,4.
Mikill hvalreki fyrir ÍR-inga en jafnframt mikil blóðtaka fyrir Snæfell.
Mynd: Stefán Karel í baráttu við Sæmund Valdimarsson hjá Stjörnunni. (Tomasz)