spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStáltaugar tryggðu annan sigur Grindavíkur í röð

Stáltaugar tryggðu annan sigur Grindavíkur í röð


Grindavík heimsótti Fjölni í Grafarvogi í kvöld. Hvort liðið um sig hafði unnið einn leik í vetur. Stemningin var ekki mikil í upphafi leiks og var lítið um stigaskorun til að byrja með. Liðin lifnuðu þó fljótlega við og í hálfleik voru yfir 100 stig skoruð.

Það hægðist aðeins á stigaskori í seinni hálfleiknum en stemningin varð aftur á móti betri. Það munaði um trommuslátt í stúkunni því í fyrri hálfleik var á löngum köflum eins og að vera á bókasafni. Grindavík hafði betur að lokum en liðið þarf að leika betur í lengri tíma gegn sterkari liðum ætli það sér sigur gegn þeim.

Gangur leiks:
Grindavík leiddi í leikhléi með sex stigum. Tilfinningin var samt þannig að liðið hefði vel getað leitt með fimmtán. Valdas átti frábæran fyrsta fjórðung hjá gestunum á meðan lítið gekk upp hjá Róbert Sig hjá heimamönnum. Róbert vaknaði í öðrum fjórðungi og hann ásamt Jere héldu Fjölni í leiknum. Grindavík fór að pressa í öðrum fjórðungi sem skilaði góðum árangri og þá kom Björgvin sterkur inn af bekknum. Jamal byrjaði rólega hjá Grindavík en vann sig inn í leikinn.

Í seinni hálfleik komu heimamenn ákveðnari til leiks og Moses ætlaði að sýna að hann hefði völdinn á vellinum. Hann varði í tvígang skot frá gestunum með tilþrifum. Róbert hélt áfram að stýra sínum mönnum með sæmd. Jamal og Valdas héldu áfram að bera af í stigaskori hjá gestunum. Fjölnir komst yfir og leiddi með sex stigum þegar skammt var eftir. Ingvi setti stóran þrist og þá var Jamal ískaldur á vítalínunni þegar tæp sekúnda var eftir. Grindavík stigi undir en bæði vítin ofan í. Moses fékk boltann í lokasókn Fjölnis og var nálægt því að tryggja stigin tvö fyrir heimamenn.

Vendipunkturinn:
Grindavík stillti upp í sína lokasókn þegar skammt var eftir. Jamal hirðir sóknarfrákast eftir að skot mislukkaðist og á honum var brotið. Jamal fór á vítalínuna þegar 0,9 sekúndur voru eftir og Grindavík stigi undir. Jamal var ískaldur á línunni og setti bæði vítin ofan í sem tryggði Grindavík annan sigurinn í röð.

Hetjan:
Jamal var klárlega hetja þessa leiks með því að tryggja sigurinn. Hann skilaði 28 stigum, fiskaði 7 villur og hirti 16 fráköst, alls 34 í framlag. Jamal þurfti að fara af velli snemma leiks og á köflum virtist hann ekki í frábæru leikformi. Það kom þó ekki niður á frammistöðu hans í kvöld.

Tölfræðin lýgur ekki:
Mögulega trúir þú, lesandi, því ekki en Fjölnir átti fleiri óöguð 3ja stiga skot í leiknum. Þá var vítanýting heimamanna alls ekki upp á marga fiska. 7 víti niður í 14 tilraunum.

Leikmannahóparnir:
Fjölnir spilaði einungis á sjö leikmönnum í leiknum í dag. Spurning hvort það sé nóg til að halda sér uppi í deildinni. Óli Óla var að glíma við meiðsli og það munar um minna hjá Grindavík. Björgvin og Ingvi skiluðu góðum mínútum af bekknum. Nökkvi lék eina mínútu sem áttundi maður hjá gestunum.

Þrettán stoðsendingar:
Það verður að fjalla um frammistöðu Róberts hjá heimamönnum. Hann átti ekkert sérstakan fyrsta leikhluta en kom sterkur inn í næsta. Í seinni hálfleiknum stýrði hann sínu liði með sóma og endaði með 19 stig og 13 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Sæbjörn Þór

Viðtöl / Sigurbjörn Daði

Fréttir
- Auglýsing -