Það er leikur 4, Stjarnan-Þór Þ.! Þórsarar leiða 2-1 og nú er pressan á Stjörnumönnum.
Það er mikilvægt fyrir bæði lið að einbeita sér að leiknum í kvöld, ekki næstu andstæðingum. Keflvíkingar eru nefnilega með yfirslátrara sem kallar ekki allt ömmu sína og er kallaður Dom. Skósveinn hans er jafnvel blóðþyrstari, kallaður Dean. Báðir lagnir með sveðjuna, á gjörólíka vegu þó. Þeim og þeirra sendisveinum stýrir svo Hörður Axel eins og kóngur…sem þiggur ráðgjöf bróður síns! Til þess að fullkomna þessa miklu ógn má benda á að aðstoðarþjálfarinn er frá höfuðstað Vesturlands! Með öðrum orðum; Stjörnumenn og Þórsarar eiga það sameiginlegt að þurfa að sjá tilgang með því að komast í úrslit.
Allaveganna…! Við skulum einbeita okkur að leik kvöldsins, enda eiginlega óhugsandi að hann verði ekki skemmtilegur.
Kúlan: Jæja…maður hittir ekki alltaf á það, þú færð einn séns í viðbót:
,,Þakkir, auðmjúkar! Hmmm…jájá. Stjarnan jafnar einvígið! Held ég, eða svona stefnir í það ef út í það fer….93-91 í spennuleik…eða svona smá spenna á köflum, sennilega. Hmm…“
Byrjunarlið:
Stjarnan: Hlynur, AJ, Alex, Addú, Ægir
Þór Þ.: Drungilas, Lawson, Larry, Styrmir, Raggi
Gangur leiksins
Heimamenn sóttu grimmt á póstinn í byrjun með bakið í körfuna og AJ setti fyrstu stig leiksins. Það gekk í raun ekkert frábærlega því vörn gestanna var prýðileg. Sömu sögu var hins vegar að segja um varnarleik Stjörnumanna, hún var grjóthörð rétt eins og veggurinn fyrir aftan þá. Gestirnir leiddu með örfáum stigum út fyrsta leikhlutann en Tommi setti góðan þrist í horninu fyrir heimamenn undir lokin og munurinn aðeins 3 stig, 16-19, eftir fyrsta hluta.
Áfram var lítið skorað í leiknum og einhver myndi segja að nú væri loksins alvöru úrslitakeppnisleikur í gangi. Heimamönnum gekk þó ívið betur að slysa boltanum einstöku sinnum niður um körfuhringinn og höfðu snúið dæminu við um miðjan leikhlutann og nú leiddu þeir með örfáum stigum. Staðan var 36-34 í hálfleik en Larry nýtti vel síðustu 4 sekúndurnar til að minnka muninn niður í einnar körfu leik með hyldjúpum tvisti. Það er óhætt að segja að taktur leiksins var Stjörnunni í hag, leikurinn hægari, minna stigaskor, meiri barátta og frákastabaráttan Stjörnumönnum í vil. Einhvern veginn hlýtur að mega tengja það við þá staðreynd að gestirnir höfðu aðeins tekið 11 þriggja stiga skot í hálfleik og öldungis og aðeins 3 þeirra fóru niður.
Það er ekki annað hægt en að grípa í stál í stál-frasann góða til að lýsa þriðja leikhluta (og mestöllum leiknum í raun). Þórsarar voru í vandræðum sóknarlega og náðu engum takti eða tempói í spilið sem átti e.t.v. sinn þátt í því að þeir hittu ekki baun! Vörn gestanna var hins vegar enn mjög þétt sem hélt þeim inn í leiknum. Um miðjan leikhlutann leiddu heimamenn 45-40 en Lawson, Styrmir og Drungilas hlóðu þá í besta sprett gestanna í leiknum og breyttu stöðunni í 45-47. Heimamenn svöruðu að bragði og leiddu 56-50 fyrir lokafjórðunginn.
Það mátti heyra smá brak í liði gestanna í lok fjórða og svo brothljóð snemma í fjórða leikhluta. Ægir átti gott þriggja stiga högg í lok þriðja og sló í sama stað með geggjuðu gegnumbroti snemma í fjórða. Gunni henti svo í þrist og kom Stjörnunni í 61-52 og AJ blokkaði Halldór í næstu vörn. Þó svo að fjórði leikhluti hafði bara rétt farið af stað á þessum tímapunkti var tilfinningin sú að björninn væri unninn. Merki þess komu svo á færibandi, Emil hélt að hann væri á leiklistaræfingu allt í einu og Halldór vissi sennilega bara ekkert hvar hann var staddur. Satt best að segja var framganga þeirra í þessum leik algerlega óásættanleg. AJ bætti við forskotið með 4 góðum stigum af póstinum í framhaldinu og Tommi átti síðasta rýtinginn með flottum þristi í horninu, þá voru 3 mínútur eftir og staðan 69-53. Lokatölur urðu 78-58, glæsilegur vinnusigur Stjörnumanna!
Menn leiksins
Undirritaður vill meina að Arnar Guðjóns þoli ekki ,,maður leiksins“-útnefningu og hefur kannski eitthvað til síns máls. Liðið vann þennan leik með stáli og hníf, það skiptir ekki máli hver mokaði mest – kaupið er það sama fyrir alla – sigur og oddaleikur! En AJ Brodeur verður samt tekinn hér út, hann skilaði 16 stigum, tók 13 fráköst og mokaði sem óður væri með liðsfélögum sínum.
Hjá gestunum var eiginlega enginn góður sóknarlega, enda sóknin bara í molum heildina á litið. Vörnin var fín fram eftir þriðja leikhluta en svo smallaðist leikur liðsins í trilljón búta.
Kjarninn
Stjörnumenn strituðu í sveita síns andlits í þessum leik og uppskáru að lokum ríkulega, öruggur og glæsilegur 20 stiga sigur! Undirritaður vill meina að Arnar hafi lagt leikinn snilldarlega upp og leikmenn fylgt uppskriftinni af stakri prýði. Í viðtali eftir leik hafði Arnar þó meiri áhuga á að ræða það sem miður fór og benti á að sóknarleikurinn hafi verið ansi stirður allan leikinn! Það er hárrétt og ef Arnari tekst að smyrja hann og fá sama vinnuframlag í oddaleiknum frá verkamönnum sínum sigra Stjörnumenn án nokkurs vafa.
Gestirnir héldu haus langt frameftir þriðja leikhluta þrátt fyrir agalegt mótlæti. Þórsarar náðu einhvern veginn aldrei að spila sinn leik, flæðið var lítið og kannski hittnin eftir því. Liðið reyndi allt, eins og Lalli talaði um í viðtali eftir leik, en það bara gekk nánast ekkert upp. Liðið lagði til dæmis mikið upp úr því að sækja á körfuna og reyna fyrir sér á póstinum, en niðurstaðan þrátt fyrir allt 20 stiga tap. Meistari Teitur á kannski svolítið í sigri Stjörnumanna, heimamenn settu lok á sykurkarið.
Oddaleikurinn fer fram á laugardaginn 12. júní! Það er í mesta lagi 1900 manns sem gráta það. Þór hefur heimavöllinn, en Stjarnan reynsluna og búa einnig að þessum frábæra sigri í kvöld.