spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSprækir Þórsar sprungu á limminu

Sprækir Þórsar sprungu á limminu

Eftir 106 daga Covid pásu fengu Grindvíkingar loks að sjá sína menn snúa aftur á parketið þegar Þórsar frá Akureyri heimsóttu HS Orku-höllina í kvöld. Leikurinn var jafnframt fyrsti leikur Bjarka Ármanns Oddssonar sem þjálfara í efstu deild. Bjarki er hokinn af reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari en stígur nú sín fyrstu skref sem þjálfari í efstu deild. Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, þekkir Bjarka ágætlega en þeir léku saman með Þór í kringum aldamótin. En enginn er annars bróðir í leik og Daníel var án vafa staðráðinn í að láta Bjarka bíða aðeins eftir sínum fyrsta sigri, og tókst ætlunarverk sitt áður en yfir lauk.

Við skegg Óðins! Eða hár Samsons?

Grindvíkingar urðu fyrir töluverðri blóðtöku nú rétt fyrir endurræsingu móts, þegar einn af þeirra bestu leikmönnum, landsliðsmaðurinn Sigtryggur Arnar Björnsson, hélt í víking í atvinnumennsku á Spáni. Grindvíkingar hafa því farið úr því að eiga þrjá fyrsta flokks snögga bakverði sem geta tekið boltann upp, yfir í að eiga Dag Kár einan eftir í þeirri stöðu. Þeir brugðu því á það ráð að láta hinn unga Kristinn Pálsson taka boltann upp þegar Dagur fór á bekkinn en það eru ekki margir tveggja metra leikstjórnendur í íslenska boltanum. Þegar leið á leikinn tók Björgvin Hafþór boltann einnig upp á köflum, en Björgvin fann mögulega á sér að Arnar væri á förum og safnaði hári, væntanlega til að líkjast Arnari, bæði á velli og í þokka.

Slökkvilið Grindavíkur í viðbragðsstöðu

Einhverjir áttu kannski von á að það yrði svokallaður “haustbragur” á þessum leik eftir langa pásu, en ég veit að Grindvíkingar hafa æft svo til alla daga síðan að Þórólfur leyfði æfingar á ný og sást það vel á skotnýtingu þeirra í upphafi. Það var hreinlega allt ofan í og netið gjörsamlega alelda. Sjö þristar rötuðu ofan í á fyrstu 10 mínútunum í 11 tilraunum. Þórsar fóru illa af ráði sínu á lokasekúndunum og fengu 5 stig í andlitið á 15 sekúndum, og staðan 32-17.

Norðanstálið beygt en ekki brotið

Bjarki lét sína menn heyra það og heimtaði meiri orku, og þeir hlustuðu. Í stað þess að brotna undan pressunni frá Grindavík bognuðu Þórsar eingöngu og réttu svo hressilega úr sér. Af miklu harðfylgi komust þeir hratt og örugglega inn í leikinn á ný. Skotin hættu að detta hjá Grindavík og Þórsarar unnu leikhlutann 24-37 og aðeins 2 stiga munur í hálfleik, 56-54.

Fastir liðir eins og venjulega

Þórsar héldu uppteknum hætti í upphafi þriðja leikhluta og voru fljótlega komnir 5 stigum yfir. En Grindavíkurhópurinn er sennilega með þeim reynslumestu í deildinni og ekkert panik þrátt fyrir smá hikst í sóknarleiknum og staðan orðin 70-67 um miðjan leikhlutann. Þórsar létu þó ekki deigan síga og héldu vel í Grindvíkinga, með þá Srdan Stojanovic og Dedrick Deon Basile fremsta í flokki. Staðan 83-79 eftir þrjá leikhluta og leikurinn galopinn.

Seiglan segir til sín hjá Grindvíkingum

Þórsar ákváðu að prufa svæðisvörn í 4. leikhluta, sem Grindvíkingar leystu ítrekað með þolinmæði og seiglu og fengu opin og góð skot. Þeir hreinlega splundruðu vörninni eins og Kjartan Atli orðaði það svo snyrtilega í lýsingunni. 

Hinir fjóru erlendu leikmenn Þórs drógu þó vagninn áfram og héldu þeim inn í leiknum, allir komnir í tveggja stafa tölu þegar 6 mínútur voru eftir og þrír þeirra yfir 20. Þórsar fengu hins vegar lítið stigaframlag frá íslensku leikmönnum sínum, en þeirra sterkasti leikmaður, Júlíus Orri Ágústsson, var ekki með í kvöld. 

Þreytan fór svo greinilega að segja til sín hjá útlendingahersveitinni undir lokin og var greinilega dregið af þeim í vörninni. Þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af leiknum setti Joonas enn einn þristinn (3/5) og Grindavík komið 14 stigum yfir og setti einn af síðustu nöglunum í kistulok Þórsara.

Víti til varnaðar

Vítanýting Þórsara var afleit framan af leik, skánaði þó undir lokin en endaði þó aðeins í 65% og 9 slík fóru forgörðum, sem er ekki boðlegt í efstu deild í jöfnum leik. Þá voru Grindvíkingar komnir í bónus þegar fjórar og hálf mínúta voru lifðu leiks, sem reyndist Þórsurum dýrkeypt og háði þeim í varnarleiknum, þegar þeir þurftu að herða hann til að reyna að saxa á forskot Grindvíkinga.

Ekki bara Byko sem byggir á breiddinni

Grindvíkingar fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum í kvöld, fimm leikmenn fóru yfir 10 stigin en Dagur Kár var stigahæstur með 29 stig og bætti við 8 stoðsendingum og 4 fráköstum. Flæðið í sóknarleik Grindavíkur í kvöld var til fyrirmyndar, en þeir gáfu 32 stoðsendingar, á móti 22 hjá gestunum.

Getum við fengið að sjá þetta aftur?

Ólafur Ólafsson byrjaði leikinn á bekknum í kvöld, en lét það þó ekki stoppa sig í að eiga mörg ef ekki öll glæsilegustu tilþrif leiksins. Í fyrri hálfleik tapaði hann boltanum klaufalega þegar Dedrick stal honum en téður Dedrick hefur sennilega ekki lesið “scouting report-ið” um Ólaf sem hljóp hann uppi og hamraði sniðskot Dedricks af alefli í spjaldið. Ólafur setti svo punktinn yfir i-ið í lokin með glæsilegri flautukörfu þvert yfir völlinn.

Hvað þýða þessi úrslit?

Mest lítið er það ekki? Deildin er jú varla komin af stað og nóg eftir, en Grindvíkingar eru þá með 100% sigurhlutfall en Þórsarar og Bjarki Ármann bíða átekta eftir sínum fyrstu stigum. Það er þó eitthvað sem segir mér að það verði ekki langt að bíða ef liðið spilar af sama ákafa og þeir gerðu í kvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Benóný Þórhallsson)

Fréttir
- Auglýsing -