spot_img
HomeFréttir"Spila aðeins í Evrópukeppnum" - Icelandair í úrslit

“Spila aðeins í Evrópukeppnum” – Icelandair í úrslit

Þeir sem bíða eftir að íslenskt lið komist uppúr sínum riðli og spili til úrslita um Evrópumeistaratitil þurfa ekki að bíða lengur. Lið Icelandair fór nú um helgina til London og öttu þar kappi við nokkra kollega sína í flugbransanum. Svo fór að Icelandair tryggði sig upp úr riðlinum og í úrslitamótið.  Í liði Icelandair voru tveir "gamlir" landsliðsmenn sem sýndu gamla góða takta um helgina.

Icelandair spiluðu gegn liðum EL-AL (Ísrael) , Lufthansa (Þýskaland) og heimamönnum í British Airways. Fyrsti leikurinn tapaðist gegn EL-AL með 11 stigum en í þeim leik var þó nokkur vottur af flugþreytu hjá liði Icelandair sem skömmu fyrir leik höfðu lent í London.  Leikur númer 2 var daginn eftir gegn Lufthansa og fer líkast til í metabækurnar þar sem hann endaði  59-59. Engin leið var að fá framlengingu og þrátt fyrir að  Þjóðverjarnir hafi fengið á sig tæknivillu fyrir kjaftbrúk eftir leik þá var liði Icelandair engin víti gefin fyrir það, til að klára dæmið.  Flugþreytan var loks að fara úr mönnum í seinni leiknum á laugardeginum gegn British Airways. Heimamönnum var lítil virðing sýnd og lauk leiknum með 37 stiga stór sigri Icelandair.  

 

Með þessum sigri tryggði Icelandair sér annað sætið í riðlinum og auk þess keppnisrétt í úrslitamótinu sem fram fer seinna á þessu ári.  Í liði Icelandair voru meðal annars þeir Ástþór Ingason sem gerði garðinn frægan í Njarðvík og fyrrum stórskytta þeirra Keflvíkinga Guðjón Skúlason. „Það sem eftir lifir míns ferils spila ég bara í Evrópukeppnum, læt ekkert bjóða mér neitt minna. Þannig að öll þau lið sem hafa verið að hafa samband með samningstilboð geta látið af því nú þegar, nema auðvitað þau geti sýnt fram á þáttöku í slíkri keppni“ sagði Guðjón í samtali við Karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -