spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSpennulítið í Þorlákshöfn

Spennulítið í Þorlákshöfn


Ekki verður beint hægt að segja að rimma KR og Þórs Þorlákshöfn sé ekki fyrir hjartveika því spennan í fyrstu tveimur leikjunum hefur verið af skornum skammti. Tiltölulega öruggur sigur KR í fyrsta leik og sigur þeirra grænu var öruggari í kvöld, þótt gestirnir hafi verið á undan upp úr blokkunum en lokatölur 102-90.


Já þeir röndóttu byrjuðu betur og voru fljótlega komnir í 10+ forskot en lokasprettur opnunarhlutans var heimamanna en KR leiddi að honum loknum, 19-26. Eftir það tóku heimamenn í raun öll völd og var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Þórsarar unnur annan leikhlutann 29-14 og leiddu því með 8 í hálfleik, 48-40 og því forskoti var aldrei ógnað almennilega það sem eftir lifði og enginn þurfti því að taka sprengitöflurnar sínar.


Ekki þarf einn né neinn með hátt körfubolta-IQ til að koma auga á besta leikmann vallarins í kvöld en mér er til efs að önnur eins tölfræðilína hafi sést í vetur eins og hjá Kinu Rochford í kvöld! 50 í framlag (29 stig, 17 fráköst, 9 stoðsendingar og nýtti 10/14 skotum sínum auk 9/11 vítum með sínu ótrúlega „spjaldið í-vítaskotstíl“) KR-ingar réðu einfaldlega ekkert við hann. Allir aðrir lögðu sitt í púkkið en það væri í raun vanvirðing við Kinu að fara nefna aðra leikmenn….


Eins og Jón Arnór orðaði það í viðtalinu, hann og hans menn voru einfaldlega flatir í kvöld – eins og þeir voru í fyrsta leiknum að mati Jóns. KR-liðið virkaði stemningslaust og vörnin var afskaplega lek inn á milli. Di Nunno og Boyd, eins frábærir sóknarmenn og þeir eru, þá verður þeim seint hrósað fyrir varnarleik sinn. Kristófer Acox kannski sá eini með almennilegu lífsmarki í kvöld og skilaði 27 í framlag (15 stig og 10 fráköst). Aðrir geta margfalt betur og þeir vita það manna best sjálfir. Verður fróðlegt að sjá hvernig KR-inga mæta til leiks á laugardagskvöldið í DHL en með sömu spilamennsku munu þeir ekki fá tækifæri á að verja titil sinn, það leyfi ég mér að fullyrða!

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði

Fréttir
- Auglýsing -