Fyrir leik
ÍR tók á móti Njarðvíkingum í fyrsta heimaleik stelpnanna í Hertz-hellinum í 1. deild kvenna tímabilið 2018-2019. Fyrir leikinn var ljóst að það vantaði tvo stólpa í heimaliðið, en Nína Jenný Kristjánsdóttir og Hrafnhildur Magnúsdóttir voru fjarri góðu gamni vegna veikinda. Njarðvík hafði unnið seinasta leik á heimavelli gegn Hamri á meðan að ÍR-ingar höfðu farið fýluferð norður á Akureyri um seinustu helgi.
Gangur leiksins
Leikurinn var jafn framan af og liðin voru mikið að skiptast á körfum. Njarðvíkurstelpur voru þó alltaf eilítið á undan og ÍR-ingar yfirleitt að elta. Gestirnir gátu hins vegar aldrei almennilega slitið sig frá heimastúlkunum og liðin skiptust á forystu 11 sinnum og staðan varð jöfn 10 sinnum í leiknum.
Um miðbik 3. leikhluta eftir að ÍR hafði tekið 12-2 áhlaup fóru Njarðvíkingar hins vegar hægt og bítandi að slíta sig frá heimaliðinu. Of mörg mistök (tapaðir boltar og léleg skot) hjá Breiðholtspíunum á seinustu 15 mínútum leiksins skóp að lokum 19 stiga sigur hjá Ljónynjunum, 61-80.
Lykillinn
Vilborg Jónsdóttir var mjög drjúg fyrir þær grænklæddu í kvöld, en hún bar uppi stigaskor Njarðvíkurstúlkna á köflum í leiknum (skoraði mest 8 stig í röð). Hún lauk leik með 19 stig, 6 fráköst, 6 stoðsendingar, 3 stolnir boltar, 10 fiskaðar villur og aðeins einn tapaður bolti á tæpum 30 mínútum. Hún var framlagshæst í leiknum með 27 framlagspunkta. Júlía Scheving Steindórsdóttir var sömuleiðis nokkuð öflug með 16 stig og 6 fráköst (og +/- upp á +17). Hjá ÍR var Katla Marín Stefánsdóttir framlagshæst með 21 framlagspunkta, en hún lauk leik með 14 stig og 11 fráköst.
Tölfræðin
Þrátt fyrir að hafa tekið 9 fleiri sóknarfráköst en Njarðvík (17 gegn 8) þá áttu ÍR-ingar annan slæman skotdag (32,8%) og töpuðu allt of mörgum boltum (26 gegn 19 hjá Njarðvík). Ljónynjurnar refsuðu að sama skapi vel fyrir mistök Breiðhyltinga, en þær skoruðu 25 stig úr töpuðum boltum gegn aðeins 10 stigum hjá ÍR úr töpuðum boltum. Njarðvíkurliðið var samtals með 96 framlagspunkta gegn 54 hjá ÍR.
Kjarninn
ÍR voru mikið að hökta í leiknum og virtust fæstar geta tekið ákvarðanir gegn vörn Njarðvíkurstúlkna. Sendingar voru yfirleitt seinar og of mörg skot illa ráðin. Breiðhyltingar sýndu góða takta á köflum en þeir voru ekki jafn margir og langir og slæmu kaflarnir. Njarðvíkurstúlkur voru líka að gera mikið af mistökum en voru svo lukkulegar að heimaliðið var ekki nógu duglegt að refsa þeim til baka.
Samantektin
ÍR hefur byrjað tímabilið illa með þremur töpum og tapað leikjunum að meðaltali með 17 stigum. Þær verða að hrista þetta slen af sér og mæta í næstu leiki ef þær vilja eiga ágætt tímabil. Njarðvíkurliðið lítur allt öðruvísi út í ár en á því seinasta og leikur þess er einhvern veginn orkumeiri. Þetta virðist vera nokkuð góður og samheldinn hópur sem gæti strítt efstu liðunum í deildinni með aðeins beittari leikjum. Þær eru sem stendur með 2 sigra í þrem leikjum og því í þriðja sætinu á eftir Fjölni og Grindavík.