Á morgun sunnudag 23. febrúar mun íslenska karlalandsliðið leika lokaleik sinn í undankeppni EuroBasket 2025. Fyrir leikinn er liðið í fínni stöðu í þriðja sæti riðils síns, en með sigri gegn Tyrklandi eða ef Ungverjalandi mistekst að vinna Ítalíu nær Ísland að tryggja sig inn á lokamótið.
Hérna eru fréttir af undankeppni EuroBasket
Á lokamótið fara 24 sterkustu þjóðir undankeppninnar, en fyrir leiki þessa síðasta glugga keppninnar höfðu aðeins 10 lið tryggt sér þátttökurétt. Hér fyrir neðan má sjá hvaða lið höfðu þegar tryggt sig áfram.
Slóvenía, Ísrael, Ítalía, Tyrkland, Serbía og Litháen hafa öll tryggt sér þátttökurétt í gegnum undankeppnina. Þá hafa Pólland, Finnland, Lettland og Kýpur tryggt þátttökurétt sinn sem þjóðirnar sem halda mótið.
Eftir fyrri leik þessa síðasta glugga bættust svo 10 þjóðir í hópinn, en þær eru.
Portúgal, Spánn, Belgía, Bosnía, Frakkland, Bretland, Tékkland, Grikkland, Georgía og Eistland.
Ljóst er því að aðeins fjögur sæti eru eftir á mótinu, en þar er um að ræða eitt sæti fyrir annaðhvort Ísland eða Ungverjaland í riðil B og þá hefur ekkert lið tryggt sig áfram úr riðil D. Þar sem líkt og í öðrum riðlum munu þrjú lið fara á lokamótið.
Fyrir morgundaginn er því ljóst að mest verður spennan að sjálfsögðu á milli Ungverjalands og Íslands í riðil B og þá verður baráttan ansi hörð í D riðil þar sem heimsmeistarar Þýskalands, Svartfjallaland, Svíþjóð og Búlgaría berjast um þrjá farmiða á lokamótið.