Fyrri undanúrslitaleik dagsins er lokið á EM í Litháen þar sem Spánverjar tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með 92-80 sigri gegn Makedóníu. Þar með er Öskubuskuævintýri Makedóníu á enda en liðið hefur aldrei fyrr náð jafn góðum árangri á Evrópumótinu og vakti liðið verðskuldaða athygli.
Juan Carlos Navarro fór á kostum í liði Spánar í dag með 35 stig og 4 fráköst og þá bætti Pau Gasol við 22 stigum og 17 fráköstum. Hjá Makedóníu var Bo McCalebb stigahæstur með 25 stig og 5 stoðsendingar en Pero Antic gerði 17 stig, tók 9 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.
Spánn mun því leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn gegn annaðhvort Frakklandi eða Rússlandi en undanúrslitaviðureign liðanna hefst á eftir, kl. 18.00 að íslenskum tíma.
Mynd/FIBA EUROPE: Juan Carlos Navarro fór á kostum í dag með 35 stig í sigurleiknum gegn Makedóníu.