Spánverjar eru Evrópumeistarar í kvennakörfuknattleik eftir 70-69 spennusigur á Frökkum en liðin léku til úrslita í gær.
Sancho Lyttle var hetja Spánverja með flautukörfu um leið og leik lauk en hún var einnig valin besti leikmaður móstins með rúm 18 stig og 11 fráköst að meðaltali í leik. Lyttle gerði 20 stig og tók 11 fráköst í úrslitaleiknum en Sandrine Gruda var með 25 stig í franska liðinu.
Það var starfandi forseti FIBA Europe, Cyriel Coomans sem afhenti verðlaunin á mótinu í stað Ólafs heitins Rafnssonar sem var bráðkvaddur þegar mótið var hafið. Fánar á mótinu voru dregnir í hálfa stöng honum til heiðurs.