Tindastóll tók á móti Val í Bónus-deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólastúlkur höfðu unnið Njarðvík í síðasta leik í sannkölluðum naglbít en Valskonur töpuðu heima fyrir Keflavík.
Fyrsti leikhluti einkenndist af barningi og stigaskor var ekki hátt. Strax í byrjun virtust þó Stólastúlkur eiga í erfiðleikum í varnarleik sínum og náðu sjaldan að halda sínum manni fyrir framan sig í maður á mann vörn. Heimastúlkur leiddu þó eftir fyrsta fjórðung 17-15. Í öðrum leikhluta fóru Valskonur að færa sér betur í nyt slakan varnarleik heimakvenna og náðu 9 stiga forystu um miðjan leikhlutann með þristi. Stólastúlkur náðu þó að rykkja til baka og minnkuðu muninn í 4 stig fyrir hálfleikinn en varnarleikurinn var enn slakur og Valskonur voru að auki að ná sóknarfráköstum.
Í þriðja leikhluta var jafnræði með liðunum og Stólastúlkur komust yfir um miðjan leikhlutann. Gestirnir sigu þó aftur framúr og á köflum var leikur heimakvenna óagaður og hreinlega ´sloppy´. Staðan að loknum 3. leikhluta var 52-59 gestunum í vil og þær stigu svo fast á bensíngjöfina í upphafi þess fjórða og voru komnar með 14 stiga forystu eftir rúmar 2 mínútur. Valskonur gáfu þetta forskot aldrei eftir heldur bættu bara í og sigldu að lokum öruggum sigri heim.
Hjá Tindastól voru Randi og Omoul (20 stig og 15 fráköst) atkvæðamestar en hittnin var slök og varnarleikurinn heilt yfir áhyggjuefni. Hjá Valskonum var Alyssa frábær með 29 stig og 11 fráköst og segja má að þær hafi stjórnað leiknum þó munurinn hafi aldrei verið mikill fyrr en í lokafjórðungnum.
Umfjöllun / Hjalti Árna