spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSópurinn á lofti að Hlíðarenda!

Sópurinn á lofti að Hlíðarenda!

Valsmenn geta tryggt sér sæti í undanúrslitum Subway-deildarinnar í kvöld og sópað bikarmeisturum Stjörnunnar í sumarfrí. Garðbæingar virtust framan af leik tvö ætla að jafna einvígið örugglega en Hlíðarendapiltum tókst að járna leikinn og tilviljanir lífsins féllu Val í hag eftir dúk og disk. Fyrir okkur hlutlausa fólkið hljótum við að halda með Stjörnunni í þessum leik – aðeins Valsmenn hafa engan áhuga á leik 4! Verður okkur hlutlausu eða Valsmönnum að ósk sinni í kvöld?

Kúlan: Hetjuleg mynd af Hinum þriðja birtist í Kúlunni þar sem hann er með vísifingur hægri handar upp í loftið. Það þýðir alltaf að hann er nýbúinn að klikka á skoti en merkingin er samt öfug – Hinn þriðji mun spila stórkostlega og leiða Stjörnuna til sigurs…og gefa okkur fjórða leikinn!

Byrjunarlið

Valur: Kristó, Kári, Pablo, Pavel, Lawson

Stjarnan: Tommi, Hlynur, Hilmar, Hinn þriðji, Hopkins

Gangur leiksins

Það var ágætis mæting að Hlíðarenda í kvöld og sumir jafnvel búnir að tæta sig úr að ofan enda ekkert betra fyrir stemminguna en smá nekt. Reyndar virtist vera helvítis kuldanæðingur í húsinu í byrjun, menn hittu ekkert og staðan 4-4 eftir góðar 4 leikmínútur. Gestirnir komust í 9-12 eftir tröllatroðslu frá Nat-vélinni en heimamenn lokuðu fyrsta leikhluta vel og leiddu 21-17 að honum loknum.

Valsmenn voru skrefinu á undan gestunum allan annan leikhlutann. Hlynur minnkaði muninn í 31-30 af harðfylgi undir körfunni og hefði kannski mátt fá víti í kaupbæti en uppskar aðeins tæknivillu. Hinn þriðji jafnaði svo leikinn í 36-36 þegar góðar 2 mínútur voru til hálfleiks. Jacob Dalton hrökk þá í gang og sá einkum til þess með 7 stigum að Valsmenn fóru með smá púða, 45-38, til búningsherbergja.

Athygli vakti að Nat-vélin byrjaði síðari hálfleikinn og Stjörnumenn buðu upp á svæðisvörn líkt og þeir hafa aðeins unnið með í einvíginu. Ágæt hugmynd hjá Arnari til að reyna að breyta aðeins gangi leiksins en ósagt skal látið hversu miklu það skilaði. Í það minnsta syrti í álinn fyrir gestina eftir því sem á leið leikhlutann og Lawson kom sínum mönnum í 10 stiga forskot um hann miðjan og Arnar henti í leikhlé. Það skilaði sér í þristi hjá Hopkins en Jacob svaraði bara með tveimur slíkum og Arnar tók aftur leikhlé í stöðunni 62-49 og menn fengu vel að heyra það. Það skilaði litlu og heimamenn voru með öll tök á leiknum, staðan 72-57 eftir þrjá.

Það stafaði örlítill keimur af vonleysi frá gestunum enda virkar 15 stiga forskot eins og 40 stig gegn þessu Valsliði. Kári Jóns og Kristó buðu upp á stórkostlega körfu leiksins sem endaði með Kárahnjúkatroðslu Kristó og víti góðu sem setti stöðuna í 80-62. Skömmu síðar setti Kári þrist og kom sínum mönnum 21 stigi yfir, 83-62. Vonin orðin veik en Stjörnumenn gripu til örþrifaráða, pressuðu allan völlinn og Hinn þriðji réðist ítrekað á körfuna sóknarlega. Það má svo sannarlega gefa Garðbæingum það að menn reyndu og næst komust gestirnir í stöðunni 90-82 eftir körfu góða og víti frá Hinum þriðja – 2 mínútur eftir og tími fyrir eitt kraftaverk! En allt kom fyrir ekki, Valsmenn siglu þessu örugglega heim. Lokatölur 95-85 og sópurinn á lofti!

Menn leiksins

Jacob Dalton var frábær í þessum leik. Hann klikkaði varla úr skoti, setti 27 stig og tók 5 fráköst á aðeins 24 mínútum! Kári Jóns var einnig rosalegur í leiknum, hitti mjög vel, setti 25 stig og gaf 7 stoðsendingar.

Hinn þriðji var atkvæðamestur eins og oft áður hjá Stjörnunni með 33 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Höfðinginn Hlynur Bærings fór einnig fyrir sínum mönnum, barðist eins og ljón, setti 17 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Kjarninn

Menn hafa talað um að þakið sé hátt hjá Valsliðinu og jafnvel vítt til veggja einnig. Það hefur verið góður stígandi hjá liðinu, vörnin að vísu meira og minna góð allt tímabilið en sóknin hefur slípast betur til með hverri vikunni. Jacob virðist svo vera að færa liðinu einmitt og akkúrat það sem Finnur og félagar höfðu vonast eftir – stig í flæðinu og ásættanlega frammistöðu varnarlega. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig liðið mun plumma sig í undanúrslitunum.

Það er víst bara eitt lið að lokum sem stendur uppi sem Íslandsmeistarar og Stjörnumenn þurfa enn og aftur að hinkra eftir því að röðin komi að þeim. Hlynur hafði á orði að hann væri ekki mikið að spá í bikartitilinn á þessari stundu, eðlilega. En þegar frá líður geta Stjörnumenn þó litið á þetta tímabil jákvæðum augum, flest lið enda jú titlalaus að tímabilinu loknu.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Fréttir
- Auglýsing -