spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSópurinn á loft í Blue höllinni

Sópurinn á loft í Blue höllinni

Keflavík tók á móti Tindastól í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni Bónus deildar kvenna í körfuknattleik í kvöld. Keflavík hafði unnið fyrstu tvo leiki einvígisins sannfærandi og því var sópurinn kominn á loft á Sunnubrautinni í kvöld.

Stólar byrjuðu leikinn ágætlega og settu tvo þrista á fyrstu mínútunum en það varð fljótlega ljóst að Keflavík ætlaði sér sigur í þessum leik og vildu ekki þurfa að fara aftur norður. Síðustu 3 mínútur fyrsta leikhluta breyttu heimakonur stöðunni úr 18-15 í 28-17 og strax komin brött brekka fyrir gestina að vinna sig upp. Um miðjan annan leikhluta var munurinn kominn í 14 stig en Stólar náðu að koma aðeins til baka fyrir hlé, staðan 44-38 fyrir Kef í hálfleik.

Keflavík hélt áfram að keyra á Stóla í seinni hálfleik og náðu muninum fljótt yfir 10 stigin aftur. Stólastúlkur virkuðu andlausar, stigu ekki út og áttu mjög erfitt með að halda sínum manni fyrir framan sig í vörninni. Sóknaraðgerðir þeirra voru líka þunglamalegar á meðan Keflavík var yfirleitt að finna góð skot þó hittnin hafi ekki verið sérstök. Um miðjan fjórða leikhlutann kom Jasmine heimastúlkum 23 stigum yfir og leikurinn búinn sem keppni. Keflavík sópar Stólum þægilega útúr fyrstu umferð og eru til alls líklegar í framhaldinu.

Keflavíkurliðið var að spila vel sem heild í þessum leik, Jasmine endaði með 26 stig og 16 fráköst. Randi endaði stigahæst með 14 stig í slöku Stólaliði sem hafði losað sig við Zuzönnu fyrir leikinn enda hafði hún ekki gert neitt til að réttlæta veru sína í liðinu síðan hún kom. Stólar geta verið tiltölulega sáttar við að halda sér í deildinni miðað við spilamennskuna eftir áramót en Keflavík mun gera atlögu að titlinum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -