spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSópurinn á loft er Keflavík tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn - Unnu alla titla...

Sópurinn á loft er Keflavík tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn – Unnu alla titla í boði á tímabilinu

Keflavík lagði Njarðvík nokkuð örugglega í kvöld í þriðja leik liðanna í úrslitum Subway deildar kvenna. Með sigrinum náði Keflavík að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í 17. skipti síðan þær unnu hann fyrst árið 1988. Með Íslandsmeistaratitlinum náði Keflavík að loka hinu fullkomna tímabili sínu, en áður höfðu þær unnið bæði deildar- og bikarmeistaratitil.

Fyrir leik

Keflavík hafði unnið allar fjórar viðureignir deildarinnar gegn Njarðvík í vetur, slegið þær út úr bikarnum og unnið fyrstu tvo leiki þessa einvígis. Margir þessara leikja voru þó gífurlega jafnir. Nú síðast kannski fyrsti leikur úrslita þar sem Keflavík þarf tvær framlengingar til að geta lagt þær að velli.

Gangur leiks

Leikur kvöldsins var nokkuð jafn í upphafi, en eftir fyrsta fjórðung var það Njarðvík sem leiddi, 19-22. Heimakonur í Keflavík tóku svo öll völd á vellinum í öðrum leikhlutanum og ná að skapa sér góða forystu áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 39-31.

Stigahæstar heimakvenna í fyrri hálfleiknum voru Daniela Wallen og Sara Rún Hinriksdóttir með 13 stig hvor. Fyrir Njarðvík voru það Selena Lott og Emilie Hesseldal sem skoruðu mest með 10 stig hvor.

Keflavík gerir vel að hleypa Njarðvík ekki inn í leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Ná lítillega að bæta við forskot sitt í þriðja leikhlutanum og leiða með 12 stigum fyrir lokaleikhlutann, 58-46. Í þeim fjórða heldur nær vörn Keflavíkur áfram að halda og er útséð með niðurstöðu leiksins nokkuð fyrir brakmínúturnar. Að lokum fer Keflavík með gífurlega öruggan 16 stiga sigur af hólmi, 72-56.

Verðmætust

Eftir leik var verðmætasti leikmaður úrslitanna valin leikmaður Keflavíkur Sara Rún Hinriksdóttir. Sara Rún kom heim til Keflavíkur á miðju tímabili og tók sér nokkurn tíma í að ná fullum styrk. Undir lok úrslitanna var hún hinsvegar alveg komin þangað og skilaði hún 22 stigum, 4 fráköstum, 8 af 12 skotnýtingu og +/- 24 í þessum lokaleik sem tryggði þeim titilinn.

Atkvæðamestar

Söru Rún næstar í kvöld voru Daniela Wallen með 22 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar, 9 stolna bolta og Eliza Pinzan með 2 stig, 8 fráköst og 12 stoðsendingar.

Fyrir Njarðvík var það Selena Lott sem dró vagninn með 21 stigi, 13 fráköstum og 4 stoðsendingum. Þá skilaði Emilie Hesseldal 16 stigum, 8 fráköstum, 3 stoðsendingum og 4 stolnum boltum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -