Tindastóll tók á móti Keflvíkingum í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Bónus deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar leiddu seríuna 2-0 eftir spennusigur í Keflavík í síðasta leik.
Heimamenn í Stólum byrjuðu sterkt í kvöld og virtust ákveðnir í að klára dæmið. Vörnin var feykisterk og Sadio var kominn aftur á fjalirnar eftir lítilsháttar ökklameiðsli. Stólar komust í 11-3 og svo 20-8 með þristi frá Geks en Keflavík náði að laga stöðuna aðeins með 2 þristum, staðan 22-14 eftir fyrsta leikhluta. Frábær vörn Stóla hélt áfram í öðrum leikhluta og Sadio fór að troða yfir þá hvað eftir annað. Munurinn jókst og var kominn yfir 10 stigin um miðjan leikhlutann. Stólar héldu áfram að keyra á gestina og komu bilinu í 18 stig í hálfleik 52-34.
Stólar héldu áfram að auka forskotið og voru komnir í 24 stiga mun þegar Keflavík fór loks að svara. Gestirnir settu 3 þrista í röð í andlit Stóla, staðan skyndilega orðin 61-49 og Benni tók leikhlé og las rækilega yfir sínum mönnum sem voru farnir að slaka fullmikið á í vörninni. Þristur frá Geks kom stöðunni í 71-53 þegar mínúta var eftir og Stólar litu aldrei um öxl eftir það. Keflvíkingum sópað og Stólar búnir að bóka sæti í undanúrslitum.
Hjá heimamönnum endaði Sadio stigahæstur með 21 stig í mjög jöfnu liði. Giannis náði sér aftur á strik eftir dapran leik í Keflavík með 17 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá gestunum endaði Jaka stigahæstur með 16 stig.
Viðtöl :
Umfjöllun / Hjalti Árna