spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSópuðu Val í sumarfrí og freista þess að bæta fimmta Íslandsmeistaratitlinum í...

Sópuðu Val í sumarfrí og freista þess að bæta fimmta Íslandsmeistaratitlinum í safnið

Haukar tryggðu sig í úrslitaeinvígi Bónus deildar kvenna í kvöld með 79-64 sigri í þriðja leik gegn Val í Ólafssal.

Haukar unnu einvígið því 3-0 og eru komnar í úrslitaeinvígið í fyrsta skipti síðan 2022 er liðið laut í lægra haldi gegn Njarðvík. Í úrslitaeinvíginu munu Haukar mæta sigurvegara einvígið Keflavíkur og Njarðvíkur, en þar er staðan 2-0 fyrir Njarðvík.

Leikur kvöldsins var jafn og spennandi í upphafi, þar sem Valskonum tókst þó oftar en ekki að vera skrefinu á undan. Munurinn þó aðeins eitt stig eftir fyrsta leikhluta Haukum í vil, 21-20. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Valur svo sinni mestu forystu í leiknum, 11 stigum, en því áhlaupi svara heimakonur nokkuð vel áður en liðin halda til búningsherbergja. Staðan 37-40 fyrir Val í hálfleik.

Jiselle Thomas stigahæst gestanna í fyrri hálfleik með 13 stig á meðan Lore Devos var komin með 16 stig fyrir Hauka.

Leikurinn er í járnum í upphafi seinni hálfleiksins og vart má sjá milli liðanna í þriðja leikhlutanum. Undir lok hans ná deildarmeistarar Hauka þó að sýna mátt sinn og megin, snúa taflinu sér í vil og eru með fjögurra stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 52-48. Í þeim fjórða láta þær svo kné fylgja kviði og er það í raun aldrei spurning hvort liðið muni fara með sigur af hólmi á lokasprettinum. Niðurstaðan öruggur 15 stiga sigur heimakvenna, 79-64.

Atkvæðamestar í liði Vals í leiknum voru Jiselle Thomas með 22 stig, 4 fráköst og Sara Líf Boama með 7 stig, 12 fráköst og 3 stolna bolta.

Fyrir Hauka var það Lore Devos sem dró vagninn með 32 stigum, 8 fráköstum, 3 stoðsendingum og 6 stolnum boltum. Henni næst var Diamond Battles með 19 stig og 4 stoðsendingar.

Líkt og tekið var fram þá er þetta í fyrsta skipti síðan 2022 sem Haukar leika til úrslita. Þá tapaði liðið fyrir Njarðvík, en fari svo að Njarðvík vinni Keflavík annað kvöld í IceMar höllinni, fá Haukar tækifæri til að bæta um betur.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -