spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSólrún eftir þriðja árið með Coastal Georgia Mariners "Hef fulla trú á...

Sólrún eftir þriðja árið með Coastal Georgia Mariners “Hef fulla trú á að næsta tímabil verði okkar tímabil”

Fyrir tæpum þremur árum síðan gekk Sólrún Inga Gísladóttir til liðs við Coastal Georgia Mariners. Mariners leika Sun hluta NAIA deildar bandaríska háskólaboltans.

Sólrún lék á sínum tíma upp alla yngri flokka og með meistaraflokki Hauka. Tímabilið áður en hún hélt vestur um haf, 2016-17, skilaði hún 9 stigum, 4 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik fyrir liðið í Dominos deildinni. Þá hefur Sólrún einnig leikið fyrir yngri landslið Íslands.

Karfan hafði samband við Sólrúnu og spurði hana út í háskólaboltann og lífið í Georgíu.

Hvernig fannst þér þetta þriðja ár ganga með Mariners?

“Þetta síðastliðna tímabil var lang besta tímabilið hingað til en líka mest svekkjandi tímabil sem ég hef upplifað. Það endaði ekki eins vel og Sophomore tímabilið mitt þar sem við náðum alla leið í úrslitaleikinn í deildinni, en þetta tímabil var samt sem áður mjög lærdómsríkt og örugglega skemmtilegasta lið sem ég hef spilað með þarna úti”

Er mikill munur á lífinu í Brunswick og hér heima?

“Brunswick er frekar lítill bær miðað við Bandaríkin og staðsettur á Suð-Austur ströndinni. Það er ekki mikið annað hægt að gera enn að fara á ströndina eða skoða eyjurnar í kring. En ég myndi segja að aðal munurinn sé að þar er mjög heitt, og svo þarf maður oftast að flýja bæinn í nokkrar vikur um haustið því það er aðal tímabilið fyrir fellibyli”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima?

“Helsti munurinn á körfuboltanum hérna heima og úti er sá að úti eru allir með sína stöðu og sitt hlutverk inná vellinum. Ég man í Haukum fyllti maður bara í opnu stöðurnar og endaði á stundum að spila 4/5. En úti þá er ég bara 2 og á þess vegna bara að hlaupa upp vinstri kantinn”

Er mikill munu á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?

“Tímabilið úti er miklu styttra en hérna heima. Fyrsti leikurinn okkar er oftast alveg í lok Október og seinasti leikurinn er í lok Febrúar. Mikið af leikjum á stuttum tíma og löng ferðalög. Man að við kepptum 6 leiki á innan við 2 vikum einu sinni”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára tímabilið og skóla?

“Við náðum að klára tímabilið okkar en náðum ekki að klára skólann. Eftir 3 vikur af Spring Break fengum við þær upplýsingar um að skólinn væri kominn í fjarnám og allt væri komið á netið”

Nú varst þú að klára þitt þriðja ár úti á Bandaríkjunum. Ertu að fara aftur út næsta haust? Hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Já, ég fer aftur út í haust og ætla útskrifast þaðan. Markmiðin eru að bæta sig frá seinasta tímabili og ná enn lengra í deildinni. Ég hef fulla trú á að næsta tímabil verði okkar tímabil”

Fréttir
- Auglýsing -