Snorri Hrafnkelsson hefur samið við þá grænklæddu í Njarðvíkinni til 2ja ára og mun leika með UMFN í Dominos deildinni á komandi vetri. Snorri er 19 ára, 200 cm miðherji sem er alinn upp í Breiðablik en lék með Keflavík á síðasta tímabili. Snorri og Ágúst Orrason léku einmitt saman upp alla yngri flokka Breiðabliks og sameinast að nýju í UMFN og verður gaman að sjá þá félaga í baráttunni sem framundan er. Á liðnu tímabili var Snorri með 13 mínútur á leik og skoraði í þeim 4 stig að meðaltali og tók tæp 3 fráköst.
Leikmannahópur UMFN er að taka á sig mynd fyrir næsta vetur og samkvæmt heimasíðu þeirra Njarðvíkinga munu þeir tilkynna þá leikmenn fljótlega sem nú þegar hafa samið við félagið. Flest allir leikmenn munu verða áfram og að auki hafa þeir Halldór Halldórsson og nú Snorri bæst í hópinn. Þá hafa Njarðvíkinga einnig samið við Nigel Moore um að vera með liðinu á næsta ári.
Mynd: Friðrik Ragnarsson formaður KKD UMFN og Snorri Hrafnkelsson takast í hendur eftir undirritun samningsins.