Enginn vafi leikur á því að bekkirnir verða þétt setnir í Hveragerði í kvöld og ljóst að fólk þurfi að mæta tímanlega í íþróttahúsið til þess að fá góð sæti á toppslag Hamars og Vals í 1. deild karla. Bæði liðin eru taplaus til þessa í deildinni og gera hávært tilkall í að endurheimta sæti sitt í úrvalsdeild. Við fórum á stúfana og fundum fyrir aðstoðarþjálfara Stjörnunnar, Snorra Örn Arnaldsson, og fengum hann til að rýna í slaginn.
Hvað sérðu að verði boðið upp á í Hveragerði í kvöld?
Blóð, sviti og tár. Bæði lið eru ósigruð á toppi deildarinnar og hafa að auki unnið flesta leiki sína nokkuð örugglega. Þetta verður hörkubarátta tveggja góðra liða. Það er líka til mikils að vinna, liðið sem vinnur verður strax komið með ákveðið forskot á hitt á efsta sætið, sem gefur sæti í úrvalsdeild að ári.
Hvort liðið er að fara að tapa sínum fyrsta leik?
Það er erfitt að segja, bæði lið eru vel mönnuð með frábæra kana og öflug þjálfarateymi. Þegar maður skoðar þetta ofan í kjölinn, þá held ég að heimavöllurinn verði það sem skilji á milli. Hamarsmenn eiga öflugan heimavöll, þröngt og hljóðbært hús með misháar og skakkar körfur, það kemur til með að skila sér fyrir þá. Því miður fyrir Valsmenn þá hafa heimamenn þennan með 3 stigum, eigum við ekki að segja að þjálfarinn Lárus Jónsson ísi þetta á vítalínunni á lokasekúndunum.
Mun það hafa einhver áhrif að Ágúst þjálfari Vals sé fyrrum innanbúðarmaður í Hveragerði?
Það held ég ekki. Gústi þekkir vissulega hvern krók og kima í Hveragerði sem og marga leikmenn liðsins, en það er meira en ár síðan hann var þarna síðast við stjórnvölinn. Ég held að Gústi og Sæbi einbeiti sér fyrst og fremst að því að hirða stigin tvö sem í boði eru, allt annað er sett í annað sætið.
Tveir sterkir Bandaríkjamenn í báðum liðum, veltur þetta á þeim?
Það eru 5 leikmenn inni á vellinum í einu og kanaígildið fyllir aðeins eitt af þeim, þeir skila sínum 25 stigum hvor og fylla tölfræðiskýrslurnar, en þegar upp verður staðið þá er það frammistaða hinna leikmannanna sem verður X-factorinn og ég er viss um að heimavöllurinn muni spila stórt hlutverk þar.
Eru þetta tvö af liðunum sem munu vinna deildina og þá af hverju?
Það verður að teljast ansi líklegt miðað við hvernig þetta hefur spilast hingað til. Bæði lið unnu leik gegn úrvalsdeildarliði í Lengjubikarnum, Hamarsmenn tóku KR og Valsmenn höfðu ÍR undir.