16:25:09
{mosimage}
Um og eftir helgina hafa birst myndir á karfan.is og í mbl.is sem mér finnast afar áhugaverðar útfrá dómarasjónarhorni. Margar þessarra mynda sýna snertingar milli varnar- og sóknarmanna þannig að spurningar vakna; er um villu að ræða? og þá á hvorn?
Fyrst langar mér að útskýra hvernig reglurnar og dómararnir meta þessar snertingar. Í framhaldi fjalla ég svo um nokkrar myndir.
Lögleg varnarstaða:
Til að leikmaður teljist í löglegri varnarstöðu þá skal hann
– Snúa að sóknarleikmanni
– Hafa báða fætur á gólfinu
{mosimage}
Hver leikmaður á rétt á sínum sívalning (súlu) og á meðan hann heldur sig innan hans getur hann ekki verið brotlegur. Leikmaður á rétt á rýminu fyrir ofan sig innan sívalningsins og er því ekki brotlegur þó hann hoppi beint upp innan hans.
Hreyfingar varnarmanna:
Allir vita að varnarleikmenn verða að fá að hreyfa sig til að gera eitthvert gagn. Dómarar meta þetta svona:
1. Leikmaður verður upphaflega að hafa náð löglegri varnarstöðu, en hann má hreyfa sig
2. Til hliðar, eða
3. Aftur á bak
án þess að gerast ólöglegur svo fremi sem hann er á undan á staðinn. Á undan á staðinn þýðir að þegar snerting verður milli sóknar- og varnarleikmanns verður snertinginn að vera á búk varnarleikmanns en ekki mjöðm eða öxl, til að hann teljist hafa komið á undan á staðinn.
Mat dómaranna:
Ólíkt almennum áhugamanni þá horfa dómarar meira á varnarleikmanninn þegar snertingar verða milli varnar- og sóknarleikmanna. Dómarinn spyr sjálfan sig þriggja spurninga:
1. Var varnarleikmaður upphaflega í löglegri varnarstöðu?
2. Hreyfði varnarleikmaðurinn sig til hliðar eða aftur til að viðhalda varnarstöðunni?
3. Var varnarleikmaðurinn á undan á staðinn?
Ef svarið er já við öllum þessum spurningum er aldrei villa á varnarleikmanninn. Ef nauðsynlegt er að dæma eitthvað við þessar aðstæður (hörð snerting) skal dæma sóknarvillu. Þannig þarf varnarleikmaður hvorki að vera með báða fætur á jörðinni, né kyrr til að hægt sé að dæma sóknarvillu. Þá skiptir ekki máli hvort sóknarleikmaðurinn notaði olnboga, höfuð, mjöðm eða öxl.
Algengar villur varnarmanna:
Leikmenn eiga það til að halda að þeir geri allt rétt þegar í raun að lítil atriði gera þá ólöglega.
Dæmi:
· Að fetta líkamann í óeðlilega varnarstöðu, útfyrir sína súlu, hendur, hné og mjaðmir.
· Að færa sig áfram eða hoppa áfram
· Að spila vörn of nálægt sóknarmanninum (inni í hans súlu).
Við þessar aðstæður er alltaf dæmt á varnarmann sé þess þörf.
Umfjöllun um myndir á karfan.is og mbl.is
Umföllun um myndirnar geta aldrei talist endanlegur úrskurður. Hreyfingar leikmanna, stefna þeirra og tímasetningar hafa þar mikil áhrif en slíkt sést að sjálfsögðu ekki á ljósmynd. Umfjöllunin er ekki ætluð að vera um einstaka leikmenn sem sjást á myndunum heldur aðeins að vera til upplýsinga.
Lögleg varnarstaða.
{mosimage}
Leikmaðurinn í bláu uppfyllir öll skilyrði um löglega varnarstöðu og ef hann hefur verið á undan á staðinn og hreyfir sig ekki áfram úr þessarri stöðu getur hann ekki verið brotlegur.
{mosimage}
Aftur er leikmaðurinn í bláu í góðri varnarstöðu og beitir ekki höndum í varnarleiknum, hann virðist líka á undan á staðinn þar sem snertingin er á búk hans en ekki á öxl eða mjöðm. Varnarleikmaðurinn er greinilega á hreyfingu til að viðhalda varnarhreyfingunni og má hreyfa sig til hliðar og aftur. Erfitt er að meta á þessarri mynd hvort hann er e.t.v. að færa sig aðeins áfram en þá myndi hann gera sig ólöglegan.
{mosimage}
Hér sjáum við dæmi þar sem sívalninga leikmanna skarast. Ef varnarleikmaðurinn hefur komið á undan á staðinn er hann löglegur, hins vegar er líklegt að hann stígi á móti sóknarleikmanninium og hindri því sóknarleikmanninn í eðlilegum hreyfingum innan sinnar súlu. Sé það raunin kann þetta að vera varnarvilla.
{mosimage}
Á þessarri mynd virist árekstur vera í uppsiglingu. Gefum okkur það að svo verði. Munum spurningarnar þrjár um stöðu varnarleikmannsins. Hér er ekki verið að meta hvort sóknarleikmaður ýti, heldur hvort varnarleikmaður geri allt rétt. Þó varnarleikmaðurinn sé ekki með fætur á gólfinu og sé augljóslega á hreyfingu er þetta góð staða fyrir hann. Ef nauðsynlegt er að dæma eitthvað stefnir þetta í sóknarvillu.
{mosimage}
Þessi mynd er klassísk fyrir spurningu um varnar- eða sóknarvillu. Ég sá ekki leikinn og veit ekki hver var aðdragandinn. Þegar sóknarleikaður stekkur upp og væntur lendingarstaður er laus þegar hann hefur stökkið, þá má varnarleikmaður ekki hreyfa sig eftir að sóknarleikmaðurinn er kominn í loftið. Það er ekki hægt að meta það á þessarri mynd hvort varnarleikmaðurinn hafi náð stöðu áður en sóknarleikmaðurinn fór í loftið svo að jafnvel þó varnarleikmaðurinn sé innan sinnar súlu og snertingin verði á búkinn er ekki hægt að fullyrða um á hvorn villan er. Líklega verður þó að dæma annað hvort sóknar- eða varnarbrot og „bræðrabylta“ (no-call) ekki í boði.
Að gæta sóknarmanns sem rekur boltann
Varnarleikur fjarri körfunni bíður uppá mikinn hraða þar sem plássið er nægt. Að missa mann framhjá sér getur reynst liðinu dýrkeypt og því er varnarmönnum mikið í mun að halda knattrekjendum fyrir framan sig. Þegar varnarleikmaður hefur náð löglegri varnarstöðu má mann viðhalda henni með því að færa sig til hliðar og aftir á bak til að setja skrokkinn í veg fyrir andstæðinginn. Að hindra með höndum augnablik til að ná aftur fyrri stöðu kann að vera villa.
{mosimage}
Sóknarmaður gerir tilraun til að komst framhjá varnarleikmanni sem er í löglegri varnarstöðu en varnarleikmaðurinn snertir mjöðm sóknarleikmannsins með hægri hendi. Þetta er klassísk snerting, en hér þarf að meta hvort snertingin hindri sóknarleikmanninn eitthvað. Geri hún það er þetta villa á varnarmanninn.
{mosimage}
Hér er önnur mynd af sama meiði og myndin á undan.
{mosimage}
Þegar sóknarleikmaður kemst í innri stöðu er varnarmaðurinn ekki lengur að hindra sóknarleikmanninn í að komast upp að korfunni og allar snertingar, hversu litlar sem þær eru kunna að vera, dæmdar sem villur á varnarleikmanninn.
Snertingar sóknarmanna
Í nútíma leik eru leikmennirnir líkamlega vel á sig komnir og snjallir. Varnarleikur hefur batnað til muna og góðir sóknarleikmenn hafa margir þróað með sér aðferð að sækjast eftir snertingu við varnarleikmenn, einkum í þrennum tilgangi:
· Að snerta fyrst til að komast svo frá varnarleikmanninum (skapa sér rými)
· Að snerta varnarleikmanninn til að hindra hann í að ná til knattarins
· Vonast eftir að dómarinn dæmi villu á varnarleikmanninn
Dómarar hafa hin síðari ár fengið ágæta þjálfun í að þekkja svona leikaðferðir og er markmiðið alltaf það sama, að refsa ekki varnarleikmanni sem gerir ekkert rangt. Þannig geta snertingar orðið talsvert harðar þegar sóknarleikmaður sækir fast á varnarleikmann sem gerir ekkert rangt nema að verja sína súlu.
{mosimage}
Hér er augljóslega um mikla snertingu að ræða en staða varnarleikmannsins sem slík gerir hann ekki ólöglegan. Hafi hans vegar fært sig áfram eða hoppað inní sóknarleikmanninn er hann brotlegur. Hafi hann hins vegar hoppað beint upp er ekki villa á hann. Hreyfingar varnarleikmannsins eru hér lykilatriði.
{mosimage}
Þessi mynd er af sama toga og myndin á undan. Staða varnarmannsins er góð, en hér vantar að sjá atvikið í heild til að meta hvort hreyfingar varnarmannsins séu löglegar. Sóknarleikmaðurinn snýr hins vegar öxl lausu handarinnar í varnarmanninn sem er þekkt aðferð reyndra sóknarmanna sem sækja í snertingar við varnarmenn.
Að skapa sér rými
Rétt eins og varnarleikmenn reyna sóknarleikmenn að tryggja sér rými með ýmsum hætti. Að krækja (húkka) er gömul aðferð og vel þekkt. Að skapa sér stöðu sem leikmaðurinn hafði ekki með slíkum hætti er ólöglegt.
Þegar leikmaður hefur náð góðri stöðu reynir hann gjarnan að tryggja hana eins og t.d. þegar leikmenn taka varnarfrákast þá halda þeir fast um boltann með báða olnboga úti. Leikmaður sem rekur knött telst hafa náð betri stöðu en varnarleikmaðurinn þegar hann hefur höfuð og herðar framar en varnarleikmaðurinn (er undan á staðinn). Eftir það er eðlilegt að leikmaðurinn reyni að tryggja stöðu sína.
{mosimage}
Á þessarri mynd er ekkert ólöglegt að sjá. Leikmaðurinn hefur höfuð og herðar framar en varnarleikmaðurinn (sem kanski ýtir með hægri hendi) og því gerir hægri olnbogi sóknarleikmanninn ekki ólöglegan. Hins vegar ef hann hefur beitt olnboganum fyrr til að komast í þessa stöðu kann það að vera ólöglegt.
{mosimage}
Hér er útrétt hendi sóknarleikmannsins langt útfyrir sívalning hans og hann ekki með áberandi betri stöðu en varnarleikmaðurinn. Ef þessi aðferð skapar sóknarmanninum hagræði eða varnarmanninum óhagræði er möguleiki á sóknarvillu hér.
{mosimage}
Lítil snerting vinstri handar varnarleikmannsins gerir hann ekki ólöglegan í sjálfu sér. Hins vegar er varnarleikmaðurinn að hlaupa áfram og snýr ekki fyllilega að sóknarleikmanninum og það veikir stöðu hans. Hins vegar má sóknarleikmaður ekki ýta eða ryðja varnarleikmanninum úr vegi og því möguleiki á að dæma sóknarvillu hér.
Samantekt
Ljósmyndir geta gefið villandi mynd af því sem gerðist og ber því ekki að líta á umfjöllun mína sem eina rétta niðurstöðu. Heldur skal ekki tengja persónurnar á myndinni við atvikin sem um er rætt.
Hvernig varnarleikmaðurinn leikur er lykilatriði og ef hann gerir ekkert rangt er aldrei villa á hann
Sóknarleikmenn eiga það til að skapa snertingu rétt eins og varnarleikmenn.
Þakkir til ljósmyndara.
Kveðja,Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari
Myndir: [email protected], Gunnar Freyr Steinsson, Snorri Örn Arnaldsson, Rúnar Haukur Ingimarsson og Árni Sæberg