spot_img
HomeFréttirSnæfell vann skyldusigur í döprum leik

Snæfell vann skyldusigur í döprum leik

Í leik kvöldsins í Hólminum voru það Snæfell og Stjarnan sem mættust, þetta er þeirra fjórði leikur innbyrðis í vetur og þar með sá síðasti á tímabilinu. Leikirnir þrír hafa allir unnist af þeim rauðu úr Hólminum. Stjörnukonurnar voru því staðráðnar að mæta klárar til leiks til þess að stríða Íslands- og bikarmeisturum Snæfells.

 

Leikurinn byrjaði mjög jafnt og var það á hreinu að stelpurnar úr Garðabænum sem mættu níu í Hólminn voru að selja sig dýrt, þær byrjuðu 5-0 og voru með dólg í sveitinni. Jafnt var nánast á öllum tölum eftir fyrsta leikhluta 18-16 fyrir Snæfell sem skoruðu á síðustu andartökum leikhlutans. Það má eiginlega segja að Snæfellsdömur væru rétt að hitna. Ingi Þór þjálfari Snæfells var allt annað en sáttur með vörn Snæfells í leikhlutanum og gerði hann því tilkall til stelpnanna að laga það í öðrum leikhluta. Vörnin skánaði aðeins og skorðuðu Stjörnukonur 13 stig í leikhlutanum. Snæfell bættu aðeins í og settu 19 stig í öðrum leikhluta. Staðan því 37 – 29 í hálfleik og liðin ekki með mikil læti  og virtist eins og leikmenn væru ekki tilbúnir að spila leikinn. 

 

Það er óhætt að segja að landsleikjahléið hafi farið illa í liðin, það var smá haustbragur á leik liðanna í fyrri hálfleiknum. Snæfell hefur oftar en ekki byrjað þriðja leikhlutann í leikjum vetrarins mjög vel. Eftir þrjár mínútur í leikhlutanum var þó staðan 2-4 fyrir Stjörnunni og munurinn því kominn í sex stig. Áhorfendur voru orðnir nokkuð órólegir og vildu sjá heimastúlkurnar taka leikinn í sínar hendur. Lítil ákefð við að keyra að körfunni hjá Snæfell skilaði þeim aðeins þrisvar sinnum á línuna á fyrstu 25 mínútunum. 

Þegar 5 mínútur voru búnar af þriðja leikhlutanum voru liðin búin að skora 4 stig hvort. Það er á hreinu að þessi lið eru miklu betri í körfubolta en þetta, þær stöllur Rebekka Rán og Sara Diljá vildu sýna fólki annað og skelltu fimm stigum á örfáum sekúndum fyrir Snæfell og hleyptu smá fjöri í stúkuna. Fjörið varði ekki lengi og endaði þriðji leikhlutinn 12 – 8 fyrir Snæfell. Það verður að viðurkennast að leikurinn var aldrei í hættu þó svo að heimasæturnar í Snæfell væru ekki að eiga sinn besta dag, ef Adrienne Godbold hefði skorað úr ca. helmingi skota sinna undir körfunni hefði leikurinn getað þróast í aðra og betri átt fyrir Stjörnuna.

 

Stjörnukonur áttu glimrandi fjórða leikhluta og reyndu að gera leikinn spennandi en reynslu mikið lið Snæfells náði ávallt að svara eða bæta í. Stúlkurnar úr Garðabænum skoruðu 21 stig á móti 17 frá Snæfell og endaði leikurinn 66 – 58 fyrir Snæfell sem heldur því toppsætinu en Haukakonur spiluðu ekki í kvöld og eiga þær því leik inni. 

 

Snæfell eru komnar með 10 sigurleiki í röð og halda í Hafnarfjörðinn á þriðjudaginn í STÓRLEIK deildarinnar. Það má segja að liðið sem vinnur þann leik sé nokkuð öruggt með deildarmeistaratitilinn (þó svo ekkert sé öruggt í þessu lífi). 

 

Ef það á að draga leikinn í kvöld niður í nokkur orð er hægt að segja að Snæfell vann skyldusigur í döprum leik. Þessi leikur er búinn og þarf liðið heldur betur að gíra sig upp í toppslaginn á þriðjudagskvöldið. Stjörnukonur sitja ennþá í 5. sætinu með sex stig, tveimur á undar Hamar sem eru neðstar. 

 

Snæfell-Stjarnan 66-58 (18-16, 19-13, 12-8, 17-21)
Snæfell: Haiden Denise Palmer 14/14 fráköst/5 stoðsendingar, Bryndís Guðmundsdóttir 13/5 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 10/4 fráköst/6 stoðsendingar, Alda Leif Jónsdóttir 8, Sara Diljá Sigurðardóttir 6, Rebekka Rán Karlsdóttir 5, Berglind Gunnarsdóttir 4, Andrea Björt Ólafsdóttir 4/5 fráköst, María Björnsdóttir 2/4 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0, Erna Hákonardóttir 0.
Stjarnan: Adrienne Godbold 21/12 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 16/7 fráköst, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 10, Margrét Kara Sturludóttir 7/11 fráköst, Erla Dís Þórsdóttir 2, Heiðrún Kristmundsdóttir 2/4 fráköst, Eva María Emilsdóttir 0, Helena Mikaelsdóttir 0, Kristín Fjóla Reynisdóttir 0.

Fréttir
- Auglýsing -