spot_img
HomeFréttirSnæfell skellti Njarðvík í Ljónagryfjunni

Snæfell skellti Njarðvík í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar tóku á móti Snæfelli í Ljónagryfjunni í kvöld. Nokkuð vel var mætt Njarðvíkurmegin en aðeins örfáir Hólmarar lögðu leið sína til Njarðvíkur í kvöld.
 
Gestirnir byrjuðu leikinn mjög sterkt og komust í 0-12 forystu. Maciej Baginski kom Njarðvíkingum á blað með tveim vítaskotum þegar meira en helmingur leikhlutans var liðinn. Ágúst Orrason kveikti í Njarðvíkingum þegar hann kom inn á og setti þrist, stal síðan boltanum og gaf “alley-oop” sendingu á Nigel Moore sem tróð boltanum og minnkaði muninn í 12-22. Njarðvíkingar héldu áfram að sækja á og enduðu fyrsta fjórðung leiksins á 9-2 áhlaupi og staðan 16-24 eftir hann.
 
Heimamenn héngu í leiknum í öðrum leikhluta en Stykkishólmarar voru einfaldlega sterkari og höfðu svör við öllum áhlaupum grænklæddra. Snæfell endaði fyrri hálfleikinn á 9-3 “rönni” og hálfleikstölur voru 37-53.
 
Marcus Van opnaði seinni hálfleikinn með 2 stigum fyrir Njarðvík og Njarðvíkingar skoruðu stuttu síðar 6 stig í einni og sömu sókninni þegar Jay Threatt fékk á sig persónulega villu og var ósáttur með það og fékk þar tæknivillu, Elvar Már Friðriksson setti fjögur vítaskot og Nigel Moore smellti síðan stökkskoti. Staðan var því orðin 45-53 þegar 1:50 var liðin af þriðja leikhlutanum og 8-0 í þriðja leikhlutanum einum og sér. Þá tóku Hólmarar við sér og settu þrjá þrista á skömmum tíma, þ.á.m. tvo frá Pálma Sigurgeirssyni. Asim McQueen kom Snæfellingum svo í 22 stiga forystu, 53-75, þegar um tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum og Snæfell með algjört vald á leiknum. 58-81 var staðan eftir þrjátíu mínútna leik.
 
Hlutirnir fóru úr böndunum í fjórða leikhlutanum þegar Bandaríkjamenn Njarðvíkur, Nigel Moore og Marcus Van fengu báðir tæknivillu fyrir að mótmæla dómara, en Van henti boltanum í vegginn þegar hann fékk dæmd á sig skref. Það er ekki hægt að fara mörgum orðum um fjórða leikhlutann en úrslitin voru ekki spurningin á þessum tíma. Lokatölur 70-101 gestunum í vil sem nú eru komnir upp í 2. sæti deildarinnar ásamt Stjörnunni og Þór Þorlákshöfn.
 
 
Mynd/ vf.is
Umfjöllun: AÁ  
Fréttir
- Auglýsing -