spot_img
HomeFréttirSnæfell sigraði í hörkuleik

Snæfell sigraði í hörkuleik

Snæfell fékk Njarðvík í Fjárhúsið og voru þeir búnir að fá Pálma Frey aftur í gang. Njarðvíkingar hafa verið feiknarsterkir og fáir staðið þeim snúnig enda valinn maður í hverju rúmi. Snæfell stríddu Grindavik í síðasta leik en biðu lægri hlut með einu stig á meðan Njarðvík tók “derby” slaginn við Keflvík sannfærandi.

 
Njarðvík byrjuðu sprækari á fyrstu skrefunum og virtust óhræddir í Fjárhúsinu en þeir hafa ekki sótt örugga sigra þar síðustu ár. Snæfell náði að jafan 7-7 og svo aftur 13-13 þar sem Sean Burton var allsvakalegur með 8 stig í röð. Njarðvík var að spila góða vörn þó ekki hafi verið út á Snæfellsvörnina að setja. Gríðalegt jafnræði var með liðunum sem skiptust á að skora. Snæfell var með pínu forystu á síðustu mínútu fyrsta hluta en Njarðvík komu sterkir í síðustu sóknirnar með þristum frá Magga Gunnars og Rúnari Erlingssyni sem skaut Njarðvík í 28-29 forskot.
 
 
Sean Burton var í stuði og hélt Snæfelli inni í sóknarleiknum og var kominn með 21 stig þegar rétt um 3 mínútur voru búnar af öðrum hluta og leikurinn var jafn en hjá Njarðvík deildist stigaskor meira á milli manna. Snæfellingar nýttu sér byr í seglin sem þeir fengu eftir góðar körfur og blokk og komust í 45-34 um miðjann hlutan þegar lítið virtist ganga hjá Njarðvík sóknarlega og Snæfell réði hraða leiksins. Undir lokin misstu Snæfell aðeins flugið og Njarðvík sótti vel á 49-45 en fengu svo dæmda á sig tæknivillu á bekkinn. Snæfell leiddi svo í hálfleik 52-45.
 
 
Sean Burton hjá Snæfelli var í einhverjum hamskiptum og hafði sett niður 6 af 7 þristum og kominn með 29 stig. Sigurður og Jón Ólafur voru komnir með 9 stig hvor og Hlynur hafði tekið 10 fráköst.
 
Hjá Njarðvík var Jóhann kominn með 12 stig og Magnús 11 stig en skorið dreifðist meira þeim megin í fyrri hálfleik.
 
 
Sigurður Þorvalds setti tvo þrista í byrjun þriðja hluta og Snæfellingar voru sprækir strax í upphafi og lönduðu 60-49 forystu. Guðmundur Jónsson datt þá í gírinn og kom þá með næstu 8 stig Njarðvíkur og lagaði stöðuna í 63-57 en Jóhann bætti um betur og setti einn ískaldann í 63-60 og stemmingin var þeirra þegar Jón Ólafur fékk á sig tæknivillu og Njarðvík komst svo yfir 63-64. Snæfell náði svo forystunni aftur 73-69 eftir harðfylgi og var stemmingin í húsinu rafmögnuð þar sem leikurinn var virkileg skemmtun og topplið að berjast. 75-73 var staðan eftir þriðja hluta. Egill Jónasson fékk einhvern skolla í hnéð og lá utan vallar í lok þriðja hluta.
 
 
Njarðvík jafnaði 75-75 og Snæfell átti erfitt í sóknum sínum en höfðu ágæt tök á vörninni líkt og Njarðvík. Maggi Gunnars setti svo næstu 5 stig góð og kom gestunum í 75-80. Allskonar rugl var í gangi hjá Snæfelli í sóknunum og Njarðvík náði 9 stiga forystu 80-89 en ekkert féll með heimamönnum á kafla Ingi Þór ræddi aðeins við sína menn. Páll Kristins fór svo út af með 5 villur þegar 4 mín voru eftir. Snæfell náði svo með harðfylgi 8 stiga áhlaupi og komust nær 88-89. Hlynur setti mikilvægann þrist og lagaði stöðuna 92-91 og allt var að verða geðveikt í húsinu. Njarðvík komust svo í 92-93 en Sean Burton setti sinn áttunda þrist og kom Snæfellli í 95-93. Maggi setti eitt víti og staðan var 95-94 fyrir Snæfell þegar 13.8 sek voru eftir og Hlynur Bærings fór á vítalínuna og setti annað niður 96-94. Friðrik Stefáns missti boltann í næstu sókn og Hlynur fór aftur á línuna setti bæði niður og Snæfell sigraði 98-94 í rosalega flottum leik.
 
 
Hjá Snæfelli kom Sean með flugelda og setti niður 41 stig og setti niður 11/12 á vítalínunni og 8 þrista. Hlynur með 19 stig og 16 fráköst. Sigurður Þorvalds 17 stig og 5 fráköst. Hjá Njarðvík var Maggi Gunnars heitur með 27 stig, 6 frák og 6 stoð. Jóhann Ólafs setti 15 stig, Guðmundur Jóns 14 stig og Páll Kristins 10 stig en Friðrik náði sér lítið á strik var með 7 stig og 2 fráköst.
 
 
Ingi Þór var að vonum létt eftir baráttuleik.
 
“Þetta er erfitt prógram og það sveið mikið eftir síðasta leik þar sem við eigum að eiga leikinn þar en hentum frá okkur. Það var því mjög mikilvægt að ná þessum leik þar sem við ætlum að vera í toppbaráttunni og þetta var leikurinn um það og svo er KR næst og sá leikur sker út um hvar við ætlum að vera um jólahátíðirnar.”
 
 
 
Símon B. Hjaltalín.
 
Mynd: Eyþór Benediktsson

 
Fréttir
- Auglýsing -