Snæfell hefur samið við þá Eyþór Lár Bárðarson og Ólaf Birgi Kárason um að spila með liðinu á næstu leiktíð.
Eyþór spilaði með Snæfelli seinni part tímabilsins í fyrra og var partur af hópnum sem kom liðinu upp í 1. deild karla. Eyþór er leikmaður íslenska U20 hópsins og var partur af liðinu sem náði að tryggja sér áframhaldandi veru í A-deild.
Í samtali við fréttafulltrúa Snæfells sagði Gunnlaugur þjálfari liðsins um Eyþór: „Hann er strákur sem vill bæta sig og hann hefur hæfileika til að fara enn hærra, ég bind vonir um að hann nái að gera það með okkur og gera sjálfan sig og hópinn betri – það er eitt af okkar markmiðum.“

Ólafur Birgir Kárason skrifaði undir samning við Snæfell í kvöld og mun spila með liðinu í 1. deild karla á næstu leiktíð. Óli spilaði með Snæfelli í yngri flokkum áður en hann flutti sig um set í Fjölni og þar spilaði hann síðast í drengjaflokki auk þess að spila með Aftureldingu í fótbolta.