Snæfell hafði betur gegn Skallagrími í æfingaleik í Borgarnesi í kvöld, 73-88, en bæði lið undirbúa sig þessa dagana fyrir fyrstu deild karla sem rúllar af stað um mánaðarmótin.
Heimamenn í Skallagrími hófu leik kvöldsins betur og leiddu með 8 stigum eftir fyrsta leikhluta. Gestirnir ná í framhaldinu að snúa taflinu sér í vil og eru sjálfir komnir með 5 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik. Í seinni hálfleiknum var Snæfell svo áfram betri aðilinn og undir lokin ná þeir að sigra nokkuð sannfærandi.
Stigahæstur heimamanna í kvöld var Magnús Engill Valgeirsson með 16 stig, en honum næstur var Eiríkur Frímann Jónsson með 11 stig. Fyrir Snæfell var Khalyl Waters stigahæstur með 22 stig og Juan Luis Navarro bætti við 18 stigum.
Fréttir og tölfræði úr æfingaleikjum má senda á [email protected]